Kynning hjá Vinnuskólanum
Fulltrúar frá Bárunni og FOSS stóðu fyrir kynningu á réttindum og ýmsu sem við kemur ungu fólki á vinnumarkaðnum í Félagsmiðstöðinni Zelsíus í gær.
Fundurinn var fjörlegur og fræðandi, vonandi fyrir krakkana en ekki síður fyrir okkur frá stéttarfélögunum. Það er alltaf gott að fá tækifæri til að hitta starfsfólk á vinnustað þess. Andrúmsloftið verður afslappaðra og þægilegra líkt og í gær.
Báran þakkar kærlega fyrir sitt leiti, þetta tækifæri til að koma skilaboðum til ungs fólks, en eins og mörgum er kunnugt þá er það fyrst og fremst ungt fólk auk útlendinga sem helst verður fyrir skakkaföllum á vinnumarkaði. Það er því nauðsynlegt að hjálpa þeim að átta sig á hvernig hlutirnir eiga að ganga fyrir sig þegar þau ráða sig í vinnu.
Yfirvöld í Árborg eiga heiður skilið fyrir viðleitni sína til að auðvelda starfsfólki sínu aðgang að þessum upplýsingum. Þar sýna þau fordæmi sem fleiri mættu taka sér til fyrirmyndar!