Við vinnum fyrir þig

Translate to

Kynningarfundur og kosning um nýgerðan kjarasamning á morgun

Sjómenn athugið. Fundur vegna nýgerðs kjarasamnings Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjárvarútvegi verður á morgun sunnudag, þann 19.febrúar kl. 14:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Austurvegi 56 3.hæð. Atkvæðagreiðsla um samninginn verður í lok fundar.

Það er afar mikilvægt að sem flestir sjómenn sjái sér fært að mæta á kynningarfundinn!

Kynningarefni vegna kjarasamnings milli SFS og SSÍ frá 18. febrúar 2017

Það sem breytist frá samningi sem undirritaður var þann 24. nóvember 2016 er:

a)     Greidd er kaupskráruppbót kr. 300.000 með orlofi til þeirra sem eru í starfi og voru lögskráðir 180 daga eða meira á árinu 2016. Hafi skipverjar verið lögskráðir færri daga en 180 daga greiðist uppbótin hlutfallslega. (Eingreiðsla).

b)     Skiptaverð á á aflaverðmæti sem landað er til eigin fiskvinnslu útgerðar er 0,5%-stigum hærra en ef landað er hjá óskyldum aðila. Skiptaverð er sem sagt 70,5% ef landað er hjá eigin vinnslu útgerðar en 70% ef landað er hjá óskyldum aðila.

c)     Útgerð lætur skipverjum í té nauðsynlegan hlífðar- og öryggisfatnað. Fatnaðurinn er eign útgerðarinnar en í umsjá skipverjans. Ákvæðið tekur gildi 1. maí 2017.

d)     Skipverjar fá frítt fæði.

e)     Inn kefur grein um fjarskipti og fjarskiptakostnað skipverja.

f)     Samningstími er til 1. desember 2019.

Kjarasamningurinn í heild sinni er þá eftirfarandi:

1. Kauptrygging og kaupliðir:

Kauptrygging og kaupliðir hækka til samræmis við þær hækkanir sem orðið hafa á  almennum vinnumarkaði frá því kjarasamningar losnuðu í ársbyrjun 2011. Starfsaldursálag og tímakaup reiknast út frá kauptryggingunni og hækkar því í sama hlutfalli og kauptryggingin. Eftirfarandi tafla sýnir hækkun kauptryggingar út samningstímann verði samningurinn samþykktur:

Breyting kauptryggingar (afleiddir
kaupliðir taka sömu breytingu)
afleiddir kaupliðir

1. febr.
2017

1. maí
2017

1. maí
2018

1.maí.
2019

Háseti

288.168

301.136

310.170

326.780

Matsveinn, netamaður og bátsmaður

360.210

376.420

387.713

408.476

Yfirvélstjóri/vélavörður
(1. maður í vél)

432.252

451.704

465.255

490.170

Vélstjóri/Vélavörður
(2. maður í vél)

360.210

376.420

387.713

408.476

Yfirstýrimaður

432.252

451.704

465.255

490.170

2. stýrimaður

360.210

376.420

387.713

408.476

Skipstjóri

432.252

451.704

465.255

490.170

Aðstoðarmaður matsveins

328.334

343.109

353.402

353.402

Breyting annarra
kaupliða

9,6%

4,5%

3,0%

2. Mælingar skipa.

Samkvæmt gildandi kjarasamningi miðast skiptatöflur allra veiðigreina við stærð skipa í brúttórúmlestum. Hætt er að nota þessa mælieiningu við mælingu íslenskra skipa og eru skip eingöngu mæld í brúttótonnum. Þetta veldur því að erfitt getur reynst að finna rétt stærðarviðmið nýrra skipa eða skipa sem hefur verið breytt þar sem aðeins kemur þá fram brúttótonna tala skipsins í skipaskrá sem gefur í fæstum tilvikum rétt viðmið  í brúttórúmlestum. Verði samningurinn samþykktur skuldbinda útgerðarmenn skipa sem samningurinn nær til sig til að kaupa brúttórúmlestamælingu fyrir þau skip sem ekki hafa þá mælingu fyrir. Þá mælingu á síðan að skrá í íslensku skipaskrána. Með þessu móti er komið í veg fyrir ágreining um hvaða skiptakjör skuli gilda á einstökum skipum.

3. Olíuverð á heimsmarkaði og skiptaverð:

Verði kjarasamningurinn samþykktur hækka viðmið olíuverðs á heimsmarkaði sem ákvarðar skiptaverð í kjarasamningnum í samræmi við erlenda verðbólgu frá því kjarasamningur var síðast undirritaður í desember 2008. Olíuverðsviðmiðið breytist þannig:

Picture 1

Á meðan unnið er að bókun um heildarendurskoðun kjarasamnings á gildistíma samningsins verður skiptaverð 0,5 %-stigum hærra vegna afla sem seldur er til eigin vinnslu útgerðarinnar. Skiptaverðið verður því 70,5% þegar aflinn er seldur til eigin vinnslu í stað 70% ef aflinn er seldur til óskyldra aðila

 4. Frystitogarar.

Gerð er breyting á skiptakjörum á frystitogurum þegar fjöldi í áhöfn fer umfram 27 menn (að aðstoðar matsveini frátöldum). Þetta breytir ekki skiptakjörum á frystitogurum þar sem almennt eru 25 – 26 menn í áhöfn þeirra skipa í dag. Hins vegar er að koma stærra og öflugra skip í flotann sem mun fullvinna afurðir meira en nú er gert. Á því skipi verða 32 til 36 menn í áhöfn og er breytingin gerð til að mæta þessari fjölgun í áhöfn umfram 27 menn.

5. Ný skip.

Samkvæmt þessari grein fellur svokallað „nýsmíðaálag“ brott þann 1. mars 2031. Sjómenn þurfa ekki að skila því til baka sem þeir fengu fyrir þetta ákvæði á sínum tíma þegar ákvæðið kom inn. Rétt er að geta þess að á móti þessu ákvæði fengu sjómenn m.a. aukinn orlofsrétt, 2% hækkun á mótframlagi útgerðar í lífeyrissjóð (samtrygginguna), þ.e. mótframlagið hækkaði úr 6% í 8%, og 2% mótframlag í séreignasjóð var reiknað af öllum launum, en var áður reiknað af kauptryggingu.

Einnig er rétt að geta þess að til að ný skip geti nýtt þatta ákvæði þurfa þau að uppfylla ákveðin skilyrði sem tíunduð eru í gildandi kjarasamningi. Því hafa nokkur ný skip ekki getað nýtt þetta ákvæði þar sem þau uppfylltu ekki skilyrðin sem sett eru. En sem sagt þetta ákvæði fellur brott 1. mars árið 2031.

6. Öryggis – og hlífðarfatnaður.

Útgerð leggur skipverjum til hlífðarfatnað. Hlífðarfatnaðurinn er í eigu útgerðar, en umsjá skipverjans. Í samningnum eru viðmið um magn vinnufatnaðar eftir skipaflokkum. Ákvæðið tekur gildi 1. maí 2017.

7. Frítt fæði (ákvæði merkt dagpeningar).

Útgerðin lætur skipverjum fullt fæði í té.

8. Orlof.

Bætt er við orlofsgreinina ákvæði um að skipverji sem hefur áunnið sér aukinn orlofsrétt hjá einni útgerð  öðlist réttinn aftur eftir 3 ár hjá nýjum vinnuveitanda, þ.e. hann þarf ekki að vera í 10 eð 15 ár aftur hjá nýjum vinnuveitanda til að öðlast réttinn aftur. (Þetta er sama ákvæði og gildir hjá landverkafólki).

9. Helgar- og hafnarfrí.

Sett eru inn ákvæði um að á veiðum með línu á útilegu og á togskipum 39 m og styttri geti útgerð og áhöfn samið um að frí á föstudaginn langa og páskadag færist að sjómannadagshelginni. Semji áhöfn og útgerð um þetta verður frí um sjómannadag 5 sólarhringar í stað 3ja sólarhringa.

10. Línuuppbót.

Skipverji á línubát með beitingavél á útilegu sem hefur verið 110 – 160 daga á sjó fær línuuppbót greidda. Hafi skipverjinn verið fleiri en 160 daga á sjó fær hann fulla línuuppbót, en annars hlutfallslega þar sem uppbótin lækkar um 2% fyrir hvern fækkaðan dag. Óskert línuuppbót er kr. 50.000 sem greiðist fyrir 15. janúar ár hvert miðað við úthald síðasta almanaksárs. Skipverji sem hefur tekjur yfir 50.000 kr á úthaldsdag á þó ekki rétt á línuuppbót.

11. Sektarákvæðið.

Lagfært er orðalag varðandi sektarákvæðið vegna brota á kjarasamningi. Í framkvæmd hefur ákvæðinu í flestum tilvikum verið beitt með þeim hætti sem nú er sagt í ákvæðinu.

12. Greiðsla kauptryggingar mánaðarlega.

Samið er um að kauptryggingin verði greidd mánaðarlega, en samkvæmt gildandi ákvæði eiga skipverjar rétt á að fá kauptryggingu greidda vikulega. Ákvæðið heimilar skipverja að semja um annað fyrirkomulag en að kauptrygging verði greidd mánaðarlega.

13. Sérsamningar.

Hér er verið að árétta að ef í gildi er samningur milli útgerðar og áhafnar (sem er staðfestur af stéttarfélagi) verði nýjum mönnum gerð grein fyrir að þeir gangi inn í  þann samning enda sé þeim kynntur hann.

14. Fiskverð.

Samið er um það að fiskverð taki mið af markaðsverði og afurðaverði. Markmiðið er að verð á slægðum þorski verði 80% af meðalverði fiskmarkaðanna síðustu þrjá mánuði og mun verðið fylgja breytingu á markaðsverði og er þá stuðst við þriggja mánaða meðalverð á síðustu þremur mánuðum á fiskmörkuðunum frá þar síðust þremur mánuðum. Til viðbótar er síðan fylgst með afurðaverði og eru þar vegnar saman vísitölur afurðaverðs vegna landfrystingar, söltunar og ferskra afurða. Þetta er gert til að tryggja að ef verð á fiskmörkuðunum lækkar þó afurðaverð sé að hækka eða öfugt að þá sé hægt að grípa inn í og leiðrétta. Þetta á að tryggja að hráefnishlutfall í slægðum þorski sé sem næst 55% af afurðarverði. Sjá skýringamynd á bls. 7.

Viðmið fyrir óslægðan þorsk, slægða og óslægða ýsu og karfa verða kynnt síðar.

Varðandi uppsjávarfiskinn er skerpt á upplýsingagjöf frá fyrirtækjunum og hún samræmd þannig að hægt sé að bera verð einstakra fyrirtækja saman og grípa inn í ef verð hjá einhverju fyrirtæki víkur óeðlilega frá því sem er réttmætt.

9. Tímabundin breyting skiptaprósentu á uppsjávarskipum.

Fram fer athugun á mönnun og hvíldartíma á  íslenka fiskiskipaflotanum. Lögð er áhersla á að setja mönnun á uppsjávarflotanum og á ísfisktogurunum í forgang.

Á uppsjávarskipunum verður skiptaprósenta hækkuð ef fækkað er er niður í 8 menn og verður sú hækkun tímabundin þar til könnuninn er lokið. Þá verður samið að nýju á grundvelli könnunarinnar. Skiptaprósentan verður 0,55 hærri en hún ætti að vera miðað við 8 menn sem þýðir 2,6% hækkun á aflahlut frá skiptaprósentu m.v. 8 menn

15. Fjarskipti.

Inn kemur grein um fjarskiptamál og sundurliðun kostnaðar.

16. Sérstök kaupskráruppbót.

Útgerð greiðir sérstaka kaupskráruppbót kr. 300.000 með orlofi miðað við 180 lögskráningardaga eða fleiri á árinu 2016. Séu lögskráningardagar færri en 180 dagar greiðist greiðist fjárhæðin hlutfallslega.

17. Samningsforsendur.

Greinin um samningsforsendur er sú sama og gildir á almennum vinnumarkaði, þannig að breytist samningsforsendur á almennum markaði þannig að gera þurfi lagfæringar á samningnum koma þær breytingar einnig til sjómanna.

Jafnframt eru ákvæði í greininni um að hækki laun á almennum vinnumarkaði á árinu 2019 skuli samningsaðilar endurskoða kauptryggingu og kaupliði í samræmi við það.

18. Gildistími samningsins.

Verði samningurinn samþykktur gildir hann til 1. desember 2019 og fellur þá úr gildi án uppsagnar. Samningurinn gildir frá og með 1. febrúar 2017.

Annað í samningnum.

Með samningnum eru þrjár bókanir sem fulltrúar í samninganefnd Sjómannasambands Íslands töldu mikilvægar og verðmætar fyrir samninginn.

A – Bókun um athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í íslenska fiskiskipaflotanum.

Aðilar eru sammála um að framkvæma athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í íslenska fiskiskipaflotanum. Grunnur þessarar athugunar byggir gildandi ákvæðum sjómannalaga nr. 35/1985, og reglugerð nr. 975/2004 um vinnu- og hvíldartíma skipverja á íslenskum fiskiskipum. Lögð skal áhersla á að setja athugun á uppsjávarskipum og ísfisktogurum í forgang og kynna samningsaðilum niðurstöðu þeirrar könnunar, enda þótt að athugun standi enn yfir vegna annarra fiskiskipaflokka.

Skipa skal starfshóp til að gera þessa könnun, sem skal skipaður fjórum fulltrúum tilnefndum af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og fjórum fulltrúum tilnefndum sameiginlega af Sjómannasambandi Íslands, Sjómannafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og VM-Félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Aðilar eru sammála um að skipa sameiginlega mann til að sinna verkstjórn þessa verkefnis, en hann skal hafa þekkingu á þessu sviði. Aðilar munu óska sameiginlega eftir aðkomu Samgöngustofu að þessari vinnu.

Starfshópurinn skal hefja störf við undirritun kjarasamnings þessa og miða við að hafa lokið störfum sínum fyrir lok árs 2017.

B- Bókun um skiptimannakerfi

Á síðastliðnum árum hefur aukist verulega að settar hafi verið skiptimannaáhafnir á skip, enda hefur það skapað betra og fjölskylduvænna starfsumhverfi skipverja. Það er því markmið samningsaðila að tryggja réttindaumhverfi skipverja og útgerða í skiptimannakerfum.

Ákvæði sjómannalaga víkja ekki beint að þessu róðralagi og álitamál er um túlkun 36. gr. laganna. Með hliðsjón af dómafordæmum Hæstaréttar Íslands þegar reynt hefur á 36. gr. sjómannalaga, liggur fyrir að ólík skiptimannakerfi leiða til mismunandi réttarverndar skipverja við veikindi eða slys. Mikilvægt er hins vegar að skipverjar njóti sambærilegra réttinda óháð því skiptimannakerfi sem þeir starfa samkvæmt. Í samræmi við markmið sjómannalaga, eru samningsaðilar þannig sammála um að skipverji eigi í öllum tilvikum rétt til þeirra launa, sem hann hefði fengið greidd fyrir að gegna starfi sínu áfram, ef veikindi eða slys hefðu ekki gert hann ófæran til þess.

Unnið skal að því á fyrsta ári kjarasamnings þessa að eyða réttaróvissu um skiptimannakerfi.

C- Bókun um heildarendurskoðun kjarasamnings

Aðilar eru sammála um að á samningstímanum verði kjarasamningar yfirfarnir í heild sinni. Orðalag einstakra greina fært til nútímans, greinar felldar brott ef ástæða er til og greinum bætt inn ef þörf er á til að endurspegla betur þróun og breytt vinnubrögð útgerðar fiskiskipa og starfa fiskimanna.

Skipa skal starfshóp til að vinna að þessu verkefni, en hann skal skipaður fjórum fulltrúum tilnefndum af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og fjórum fulltrúum tilnefndum sameiginlega af Sjómannasambandi Íslands, Sjómannafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og VM-Félagi vélstjóra og málmtæknimanna.

Samningsaðilar munu gera ríkissáttasemjara grein fyrir framgangi þessarar bókunar reglulega, þ.e. í september, janúar og maí ár hvert á samningstímanum. Fundir skulu haldnir ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði á skrifstofu ríkissáttasemjara.

Á fyrsta fundi nefndarinnar skulu aðilar koma sér saman um viðræðuáætlun, þar sem hverjum fundi nefndarinnar er ætlað tilgreint úrlausnarefni. Náist ekki sameiginlegur skilningur um tilgreint úrlausnarefni á reglulegum fundi skal fjölga fundum nefndarinnar, þannig að unnt sé að ná sameiginlegum skilningi. Starfshópurinn getur óskað sameiginlega eftir aðkomu sérfræðinga eða annarra aðila sem hafa þekkingu á viðkomandi sviðum.

Starfshópurinn skal miða við að hefja störf innan mánaðar frá því að samningur þessi er samþykktur og miða við að hafa lokið störfum sínum ekki síðar en 1. júlí 2019.

Þau atriði sem skulu koma til umfjöllunar nefndarinnar eru eftirgreind:

·     Rekstrargrundvöllur einstakara bátaflokka og framtíðarhorfur

·     Skiptaverðmæti

·     Stærðarviðmiðanir fiskiskipa

·     Skiptaprósenta

·     Olíuverðsviðmið

·     Gjaldtaka stjórnvalda

·     Ráðningarsamningar

·     Iðgjaldakostnaður slysatrygginga

·     Slysa- og veikindaréttur í skiptimannakerfum

·     Helgar- og hafnarfrí

·     Greiðsluhlutfall í lífeyrissjóði

·     Fjöldi í áhöfn einstakra bátaflokka m.t.t. öryggis og hvíldartíma

·     Önnur atriði sem aðilar eru sammála um að skoða

Atkvæðagreiðsla um samninginn.

Atkvæðagreiðsla um samninginn mun standa fram á sunnudag 19. febrúar og verða atkvæði talin kl. 20:00 þann dag hjá ríkissáttasemjara. Atkvæði verða greidd á opnum kjörfundi og verða talin sameiginlega hjá SSÍ, SVG, VerkVest og SÍ.

 

Chart 3

Hér má sjá hvernig fiskmarkaðsverð og þá fiskverðsákvarðanir hafa breyst frá 2010 í samanburði við vegin afurðaverð. Sett eru 5% mörk, þannig að ef fiskmarkaðsverð fer upp fyrir þau mörk eða niður fyrir til lengri tíma litið er gripið inn í. Þetta virkar í báðar áttir og getur því komið sjómönnum til góða ef fiskmarkaðsverð lækkar í samanburði við afurðarverð.