Við vinnum fyrir þig

Translate to

Láglaunastefna öllum til vansæmdar

Stjórnarfundur Bárunnar, stéttarfélags haldinn þann 15. júní sl. hafnar þeim ummælum Samtaka atvinnulífsins sem birtust í Morgunblaðinu þann 12. júní sl.að atvinnuleitendur vilji ekki vinna störfin.

Er það eitthvað lögmál að greiða lágmarkskjör, fá ódýrt óþekkt vinnuafl og bera ekki samfélagslega/siðferðislega ábyrgð?

Báran, stéttarfélag harmar þá láglaunastefnu sem virðist vera viðloðandi á íslenskum vinnumarkaði. Láglaunastefna skapar vonleysi og er lítt til þess fallin að hvetja fólk til dáða. Félagið hafnar þeirri þrálátu og niðrandi umræðu að atvinnuleitendur „vilji ekki vinna störfin“.

Vinnufærum höndum vantar atvinnu. Atvinnuleysi fer minnkandi en viðvarandi atvinnuleysi hefur verið á landinu frá hruni og hafa margir leitað atvinnutækifæra erlendis. Á sama tíma vantar ákveðnum atvinnugreinum/atvinnurekendum á Íslandi fólk til starfa. Umræðan um að atvinnuleitendur vilji ekki vinna störfin er orðin langþreytt og niðrandi.

Veldur hver á heldur.

Er það eðlilegt meðan milljarða hagnaðartölur fyrirtækja prýða ársreikninga að starfsmenn njóti ekki góðs af? Ætti ráðningarsamband ekki að  leiða af sér gagnkvæman ávinnig beggja aðila?.

Báran, stéttarfélag skorar á  þau fyrirtæki sem ganga hvað harðast fram í þeirri umræðu að ekki sé hægt að fá vinnuafl að sýna fram á viljann til greiðslu mannsæmandi launa.