Við vinnum fyrir þig

Translate to

Leiðtogi á vinnustað

Trúnaðarmannaráðstefna verður haldin á Hótel Selfossi miðvikudaginn 24. október klukkan 13.00 – 17.00.  Báran, stéttarfélag, Verslunarmannafélag Suðurlands, Verkalýðsfélags Suðurlands og Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi standa í fyrsta sinn fyrir ráðstefnu af þessu tagi. Öllum trúnaðarmönnum félaganna er boðið til ráðstefnunnar sem ber heitið „Leiðtogi á vinnustað“. 

Við þær aðstæður sem ríkt hafa á vinnumarkaði undanfarin misseri hefur berlega komið í ljós gildi trúnaðarmanna á vinnustöðum. Þeir hafa greiðan aðgang að upplýsingum sem snerta kaup og kjör og margir hafa orðið góða þekkingu á samningum og launatöxtum. En trúnaðarmenn hafa ekki bara hagnýtu hlutverki að gegna heldur eru starfsmenn á vinnustað þar sem er trúnaðarmaður, líklegri til að huga að kjörum sínum en ella. Reynslan hefur einnig sýnt að þar sem trúnaðarmenn eru þá eru mál sem upp koma líklegri til að leysast farsællega, bæði launþega og atvinnurekanda til hagsbóta. Samningar á vinnumarkaði eru gerðir til að tryggja lágmarkskjör launamanna. Atvinnurekandinn hefur aðgang að sínum samtökum til að fá upplýsingar um rekstur sinn og að sama skapi þurfa starfsmenn að hafa aðgang að sínu stéttarfélagi til að fá upplýsingar um kjör sín til að tryggt sé að ekki sé farið niður fyrir lágmarkskjör t.d. vegna misskilnings eða rangrar túlkunar kjarasamnings.

Meðal efnisþátta á ráðstefnunni má nefna samskipti og líðan á vinnustað, eitthvað sem við öll mættum huga betur að, hlutverk trúnaðarmannsins, sem verður æ mikilvægara og  raunfærnimat á Suðurlandi verður kynnt. Raunfærnimatið getur aðstoðað fólk sem ekki hefur mikla formlega menntun að baki en mikla reynslu á sínu sviði. Góð útkoma úr raunfærnimati eykur möguleika launamanns á að sækja hærri laun en ella og gerir fólk samkeppnishæfara á vinnumarkaði. Í lok ráðstefnunnar mun Sigríður Klingenberg halda fyrirlesturinn „Orð eru álög“. Þessi fyrirlestur hefur notið mikilla vinsælda enda ekki skrítið, ef einhversstaðar er hægt að finna leiðarvísinn að aukinni lífshamingju þá er það á þessum fyrirlestri .

Stéttarfélögin leggja mikla áherslu á að efla trúnaðarmannakerfi sín og er þessi ráðstefna liður í þeirri viðleitni. Trúnaðarmaðurinn er ekki settur fyrirtækjum til höfuðs heldur til að opna leið til eðlilegra samskipta milli atvinnurekenda og stéttarfélaga. Því hvetja stéttarfélögin atvinnurekendur á svæðinu að gera trúnaðarmönnum kleyft að sækja þessa ráðstefnu enda er kveðið á um slíkt í gildandi kjarasamningum.

Við hvetjum  alla trúnaðarmenn að mæta og  eiga góðan dag.  Skráning fer fram á skrifstofu stéttarfélaganna m.a. á netfangið thor@midja.is