Við vinnum fyrir þig

Translate to

Lyf og heilsa á Selfossi oftast með lægsta verðið

Fyrr í vikunni kynnti verðlagseftirlit ASÍ niðurstöðu úr verðkönnun á lyfum seldum í lausasölu í apótekum. Nú er birt niðurstaða úr sömu könnun en sjónum beint að öðrum vörum sem til eru í apótekum. Lyf og heilsa á Selfossi var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð sl. mánudag. Skoðaðar voru m.a. vörur eins og egglosapróf, ýmiss konar krem og fæðubótarefni. Hæsta verðið var oftast hjá Apótekaranum Akureyri, í 10 tilvikum af 41 en Skipholts Apótek kom þar á eftir með hæsta verðið í 9 tilvikum af 41. Verðmunur á þeim vörum sem skoðaðar voru var frá 14% upp í 144%, en í helmingi tilvika var fjórðungs til helmings verðmunur.

Mestur verðmunur í könnuninni var á bossakreminu frá Lansinoh (85 gr.) sem var dýrast á 2.819 kr. í Urðarapóteki Vínlandsleið en ódýrast á 1.154 kr. í Reykjavíkur Apóteki á Seljavegi en það gerir 1.665 kr. verðmun eða 144%. Einnig var mikill verðmunur á Hákarlalýsi (130 stk.) sem var ódýrast á 1.011 kr. hjá Rima Apóteki Langarima en dýrast á 2.007 kr. hjá Apóteki Hafnarfjarðar Tjarnarvöllum, verðmunurinn er 99%. Minnstur verðmunur í könnuninni var á rakakremi frá Weleda (Íris 30 ml.) sem var ódýrast á 3.063 kr. hjá Lyfjaborg í Borgartúni en dýrast á 3.490 kr. hjá Apóteki Garðabæjar Litlatúni, Skipholts Apóteki og Apótekaranum á Akureyri en það gerir 427 kr. verðmun eða 14%.

20-40% verðmunur á sólarvörn
Verðlagseftirlitið skoðaði nokkrar tegundir sólarvarnarkrema og var á milli 20-40% munur á hæsta og lægsta verði þeirra. Sem dæmi má nefna sólarvörn frá Eucerin (30 UVA, 150 ml.) sem var dýrust á 3.133 kr. hjá Lyfjavali Álftamýri en ódýrust á 2.375 kr. hjá Akureyraapóteki Kaupangi, verðmunrinn er 32%. 2in1 sólarvörnin frá Decubal (SPF 30, 200 ml.) var dýrust á 2.610 kr. hjá Apótekaranum Akureyri en ódýrust á 1.827 kr. hjá Lyf og heilsu, Skipholtsapóteki og Akureyraapóteki sem gerir 43% verðmun. Froðan frá Proderm (30 high, 150 ml.) var dýrust á 2.673 kr hjá Akureyraapóteki en ódýrust á 2.031 kr. hjá Lyf og heilsu og Skipholts Apóteki, verðmunruinn er 32%. 

Af öðrum vörum í könnuninni má nefna að egglosapróf frá Sure sign (5 stk. í pakka) var dýrast á 4.970 kr. hjá Apótekaranum Akureyri en ódýrast á 3.570 kr. hjá Lyfjaborg í Borgartúni, sem gerir 1.400 kr. verðmun eða 39%. Konjak töflur (180 stk.) voru dýrastar á 6.032 kr. hjá Apóteki Garðabæjar en ódýrastar á 4.524 kr. hjá Lyf og heilsu Selfossi, verðmunurinn er 1.508 kr. eða 33%.

Mikill munur á vöruúrvali apótekanna
Ekkert apótekanna átti til allar vörurnar sem skoðaðar voru. En af þeim vörum sem könnunin náði til voru flestar þeirra fáanlegar hjá Apóteki Garðabæjar Litlatúni eða 37 af 41. Lyfjaver Suðurlandsbraut og Apótek Vesturlands áttu til 33 vörur af 41. Siglufjarðar Apótek, Apótekið Akureyri og Garðs Apótek áttu aðeins til um helminginn af þeim vörum sem skoðaðar voru.

Sjá nánar í töflu.

Könnunin var gerð í eftirtöldum apótekum: Apóteki Hafnarfjarðar, Tjarnarvöllum 11; Apótekarinn Hafnarstræti, Akureyri; Apótekinu Akureyri, Furuvöllum 17; Garðs Apóteki, Sogavegi 108; Lyf og heilsu Selfossi; Lyfju Borgarnesi; Lyfjavali Álftamýri, Álftamýri 1-5; Lyfjaveri, Suðurlandsbraut 22; Reykjavíkur Apóteki, Seljavegi 2; Rima Apóteki, Langarima 21; Skipholts Apóteki, Skipholti 50B; Urðarapóteki, Vínlandsleið 16; Akureyrarapóteki, Kaupangi við Mýrarveg; Apóteki Vesturlands, Smiðjuvöllum 32, Akranesi; Siglufjarðar Apóteki, Norðurgötu 4B; Apóteki Garðabæjar, Litlatúni 3; Lyfjaborg Borgartúni 28; Austurbæjar Apóteki, Ögurhvarfi 3. 

Árbæjarapótek neitaði þátttöku í könnunni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ