Við vinnum fyrir þig

Translate to

Mikill verðmunur á matvöru

Verslunin Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í 13 verslunum víðsvegar um landið þann 25. febrúar, en farið var í lágvöruverðsverslanir, stórmarkaði sem og klukkubúðir. Hæsta verðið var oftast að finna í klukkubúðinni 10/11 Akureyri eða í meira en helmingi tilvika. Verðmunurinn á hæsta og lægsta verði vöru í könnuninni var frá 9% upp í 218% en oftast var hann 25-75%. Af þeim vörum sem Samkaup–Úrval Selfossi átti til var í um 10% tilvika umbeðin vara óverðmerkt, sem er óviðunandi fyrir neytendur. 

Af 83 vörutegundum sem voru skoðaðar voru flestar fáanlegar hjá Fjarðarkaupum Hafnarfirði og Hagkaupum Kringlunni eða 82 af 83, Krónan Granda átti til 79 og Iceland 78. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Samkaupum-Strax eða 51 af 83 og 10/11 átti til 52. Af þessum 52 vörum sem 10/11 áttu til voru þeir dýrastir í 46 tilvikum.

Mestur verðmunur var á ávöxtum og grænmeti
Verð á 11 tegundum á ávöxtum og grænmeti voru skoðuð í könnuninni. Verðmunur á þeim var 70-218%. Minnstur verðmunur var á avacado 70% en það var dýrast á 849 kr. hjá Hagkaupum en ódýrast á 498 kr. hjá Nettó, Fjarðarkaupum, Iceland og Kaskó. Einnig var 70% verðmunur á íslenskri agúrku sem var ódýrust á 420 kr.st. hjá Bónus en dýrust á 714 kr.st. hjá Samkaupum-Strax. Benda má neytendum á að agúrka er seld í stykkjatali í mörgum verslunum, en ein agúrka er að meðaltali 350 gr.

Mestur verðmunur í könnuninni var á appelsínum sem voru dýrastar á 499 kr. hjá 10/11 en ódýrastar á 157 kr. hjá Nettó og Kaskó sem er 342 kr. verðmunur eða 218%.

Minnstur verðmunur var á osti, viðbiti og mjólkurvörum
Minnstur verðmunur að þessu sinni var á 250 gr. mysingi með karamellu sem var ódýrastur á 265 kr. hjá Bónus en dýrastur á 289 kr. hjá Hagkaupum sem er 24 kr. verðmunur eða 9%. Í þessum vöruflokki var mestur verðmunur 59% á 250 ml. KEA skyrdrykk með hindberjum og trönuberjum sem var ódýrastur á 157 kr. hjá Bónus en dýrastur á 249 kr. hjá 10/11. Sem dæmi um aðra mjólkurvöru sem seld er í öllum 13 verslununum má nefna 32% verðmun á 250 gr. MS rækjusmurosti sem var dýrastur á 499 kr. hjá 10/11 og Samkaupum-Strax en ódýrastur á 379 kr. hjá Bónus. 

Af öðrum vörum má nefna að 500 gr. Myllu fittý samlokubrauð var ódýrast á 318 kr. hjá Bónus en dýrast á 499 kr. hjá 10/11, sem er 181 kr. verðmunur eða 57%. Kílóverðið á ódýrasta heila kjúklingnum var 598 kr. hjá Víði en dýrast á 998 kr. hjá Kjarval, sem er 400 kr. verðmunur eða 67%. Mikill verðmunur var einnig á kílóverðinu á frosnum lambahrygg sem var ódýrast á 1.595 kr. hjá Bónus en dýrast á 2.578 kr. hjá Kjarval sem er 983 kr. verðmunur eða 62%. Medium Casa fiesta taco sósa er ódýrust á 232 kr. hjá Krónunni en dýrust á 359 kr. hjá Samkaupum-Strax sem var 55% verðmunur.

Að lokum má benda á að neytendur ættu að skoða vel hvar þeir kaupa uppþvottavélatöflur frá Finish, en Powerball- All in one var ódýrast á 18 kr.st. hjá Bónus en dýrast á 35 kr.st. hjá Kjarval sem er 94% verðmunur eða 17 kr.st. sem er fljótt að safnast saman, en 17 kr.st. á dag í heilt ár eru 6.205 kr. sem má nota í eitthvað annað.   

Sjá nánari upplýsingar í töflu.

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Reykjanesbæ, Krónunni Granda, Nettó Akureyri, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Samkaupum-Úrvali Selfossi, Hagkaupum Kringlunni, Víði Skeifunni, Nóatúni Nóatúni, Iceland Engihjalla, 10/11 Akureyri, Samkaupum-Strax Suðurveri, Kaskó Húsavík og Kjarval Hellu.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ