Mikill verðmunur á vinsælum bókatitlum
Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðsamanburð á jólabókum í 10 bókabúðum og verslunum víðsvegar um landið sl. mánudag. Kannað var verð á 69 bókatitlum, sem eru í bókartíðindum 2012. Eymundsson, Griffill Skeifunni og bókabúð Máls og menningar Laugavegi töldu það ekki þjóna hagsmunum sínum að verðlagseftirlitið upplýsti neytendur um verð. Þar með er brotin árlöng hefð fyrir því að neytendur geti borið saman verð hjá öllum helstu bóksölum landsins í verðkönnun ASÍ fyrir jólin. Í yfir helmingi tilvika var á milli fjórðungs og helmings verðmunur á hæsta og lægsta verði milli verslana. Lægsta verðið var oftast að finna í Bónus Egilsstöðum eða á 32 titlum af 69. Hæsta verðið var oftast að finna í Bókabúðinni Iðu Lækjargötu eða í 46 tilvikum af 69.
Mikill munur á vöruúrvali
Mikill munur er á vöruúrvali á milli matvöruverslana sem selja bækur og bókabúða. Af þeim bókatitlum sem könnunin náði til voru flestir þeirra fáanlegir hjá Bóksölu stúdenta Sæmundargötu eða 65 af 69 og Bókabúðin Iða átti 64 titla. Fæstir bókatitlarnir voru fáanlegir hjá Iceland Granda eða 30 af 69, Samkaup-Úrval Hafnarfirði átti 36 titla af 69 og Krónan Granda átti 37.
Mestur verðmunur í könnuninni var á bókinni Ljósmóðirin eftir Eyrúnu Ingadóttur, sem var á lægsta verðinu hjá Krónunni Granda á 3.490 kr. en dýrust hjá Hagkaupum Holtagörðum á 5.790 kr. sem er 2.300 kr. verðmunur eða 66%. Minnstur verðmunur í könnuninni var á bókinni Þar sem mannlífið blómstrar eftir Harald S. Magnússon sem var á lægsta verðinu hjá A4 Skeifunni á 2.490 kr. en dýrust hjá Bókabúðinni Iðu á 2.695 kr. sem er 8% verðmunur.
Mikill verðmunur á vinsælum titlum
Sem dæmi um töluverðan verðmun á vinsælum titlum fyrir jólin má nefna að skáldsagan Kuldi eftir Yrsu Sigurðardóttur var ódýrust á 3.890 kr. hjá A4 en dýrust á 5.590 kr. hjá Forlaginu Fiskislóð, verðmunurinn er 1.700 kr. eða 44%. Einnig var mikill verðmunur á unglingabókinni Aþena – að eilífu kúmen eftir Margréti Örnólfsdóttur sem var ódýrust á 2.885 kr. hjá Bónus en dýrust á 4.290 kr. hjá Bókabúðinni Iðu Lækjargötu sem er 49% verðmunur. Ævisagan Appelsínur frá Abkasíu eftir Jón Ólafsson var ódýrust á 4.781 kr. hjá Bónus en dýrust á 5.990 kr. hjá Bókabúðinni Iðu sem er 25% verðmunur. Einnig má nefna að bókin Frábært hár eftir Írisi Sveinsdóttur var ódýrust á 2.997 kr. hjá Iceland en dýrust á 4.699 kr. hjá Hagkaupum sem er 57% verðmunur.
Sjá töflu í frétt á heimasíðu ASÍ
Eymundsson, Griffill og Mál og menning Laugavegi neituðu þátttöku í könnuninni.
Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum á sama tíma: Forlaginu Fiskislóð, A4 Skeifunni, Bóksölu Stúdenta Sæmundargötu, Bókabúð Iðu Lækjargötu, Iceland Granda, Nettó Akureyri, Hagkaupum Holtagörðum, Bónus Egilsstöðum, Krónunni Granda og Samkaupum-Úrvali Hafnarfirði.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Neytendur ættu einnig að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört í verslunum á þessum árstíma.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.
Tekið af heimasíðu ASÍ