Mikill verðmunur á ýsu
Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðsamanburð á ferskum fiskafurðum í 21 fiskbúð og verslunum sem eru með fiskborð, víðsvegar um landið sl. mánudag. Kannað var verð á 24 algengum fiskafurðum, sem oft eru á borðum landsmanna. Algengast var að verðmunurinn á hæsta og lægsta verði væri á milli 40-60%. Melabúðin, Fiskbúðin Höfðabakka og Samkaup-Úrval neituðu þátttöku í könnuninni.
Lægsta verðið var oftast að finna hjá Litlu Fiskbúðinni Miðvangi eða í 14 tilvikum af 24, Fiskbúð Siglufjarðar var næst oftast með lægsta verðið eða í 4 tilvikum af 24. Mikil dreifing var á hæsta verðinu á milli verslana, en hæsta verðið var oftast hjá Hafinu fiskverslun í 7 tilvikum af 24, Fiskbúðin Vegamót og Hafberg Gnoðavogi voru með hæsta verðið í 6 tilvikum af 24 og Fiskikóngurinn Sogavegi í 5 tilvikum af 24. Allar 24 tegundirnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru til hjá Fiskbúðinni Sjávarhöllinni Háaleitisbraut og Fiskbúðinni Trönuhrauni. Fæstar tegundirnar sem skoðaðar voru, voru til hjá Fylgifiskum Suðurlandbraut eða aðeins 4 af 24.
Munur á hæsta og lægsta verði í könnuninni var frá 19% upp í 98%. Mestur verðmunur var á heilli hausaðari ýsu sem var dýrust á 990 kr./kg. hjá Fiskikónginum Sogavegi, Fiskbúð Suðurlands Selfossi og Fiskbúðinni Mos Mosfellsbæ en ódýrust á 500 kr./kg. hjá Fiskbúð Siglufjarðar en það gerir 490 kr. verðmun eða 98%.
Minnstur verðmunur var roðflettri og beinlausri ýsu sem var ódýrust á 1.590 kr./kg. hjá Fiskbúð Sjávarfangs Ísafirði en dýrust á 1.890 kr./kg. hjá Fiskbúðinni Sundlaugarvegi, Fiskbúðinni Hafberg Gnoðavogi, Fiskikónginum Sogavegi, Fiskibúðinni Hafrúnu, Hafinu fiskverslun Hlíðasmára og Fiskbúðinni Vegamótum Nesvegi, en það gera 300 kr. verðmun eða 19%.
Sem dæmi um mikinn verðmun má nefna að lax í sneiðum var ódýrastur á 1.275 kr./kg. hjá Fiskbúðinni Trönuhrauni en dýrastur á 1.898 kr./kg. hjá Hagkaupum það gera 623 kr. verðmun eða 49%.
Sjá nánar í töflu í frétt á heimasíðu ASÍ
Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Fylgifiskum Suðurlandsbraut, Fiskbúðinni Sundlaugavegi, Fiskbúðinni Hafberg Gnoðavogi, Fiskikónginum Sogavegi, Fiskbúðinni Hafrúnu Skipholti, Fiskbúðinni Sjávarhöllinni, Fiskbúðinni Freyjugötu, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Fiskbúðinni Trönuhrauni, Litlu Fiskbúðinni Miðvangi, Fiskbúð Suðurlands Selfossi, Hafinu fiskverslun Hlíðasmára, Nóatúni Hringbraut, Fiskbúð Hólmgeirs Þönglabakka, Gallerý fiski Nethyl, Fiskbúðinni Hófgerði, Fiskbúðinni Sjávarfangi Ísafirði, Fiskbúðinni Mos Mosfellsbæ, Fiskbúð Siglufjarðar, Fiskbúðinni Vegamótum og Hagkaupum Kringlunni.
Melabúðin, Fiskbúðin Höfðabakka og Samkaup Úrval neituðu þátttöku í könnuninni.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ
Tekið af heimasíðu ASÍ