Við vinnum fyrir þig

Translate to

Minnum á desemberuppbót 2020

Enn er skrifstofa stéttafélaganna lokuð vegna fyrmæla sóttvarnaryfirvalda og verður áfram lokuð þar til yfirvöld taka ákvörðun um að létta þessum kvöðum.  Þetta veldur félagsmönnum vissulega erfiðleikum og jafnvel auknu flækjustigi við að sinna erindum en við hjá Bárunni hvetjum fólk til að bíta á jaxlinn og þrauka eilítið lengur. Það er ljós við endann á göngunum og hillir undir eðlilegt líf með tilkomu bóluefna sem kynnt hafa verið síðustu dagana.

Fyrir þá sem þurfa að vera í sambandi við okkur minnum við á netfang Bárunnar, baran@baran.is og á símann 480 5000. Það er magnað hvað hægt er að gera með tækninni nú til dags og vegna mála sem er einhverra hluta vegna er ekki hægt að afgreiða gegnum síma eða tölvupóst þá er í einstaka tilvikum hægt að hitta starfsfólk gegnum fjarfundabúnað og í undantekningartilvikum, í eigin persónu. Það þarf þó að gerast með fyrirvara eftir nánara samkomulagi við starfsfólk skrifstofunnar.

En þó hér sé Covid sem breytt hefur gangi lífsins fyrir okkur þá heldur lífið áfram og sumt getur ekki beðið. Það styttist í jólin og rétt að huga að atriðum sem máli skipta. Til dæmis má vekja athygli á að um næstu mánaðarmót á launafólk að fá greidda Desemberuppbót. Við viljum hvetja fólk til að fylgjast með hvort hún skilar sér ekki örugglega. Hún er eilítið mismunandi milli kjarasamninga en hér á síðunni má sjá hvaða upphæðir eru til útborgunar miðað við hvar og á hvaða samningum fólk er að vinna.

Almennt fylgir þessi greiðsla með útborgun 1.desember t.d. hjá ríki og sveitarfélögum en í almenna kjarasamningnum er ákvæði um að greiða skuli desemberuppbót ekki seinna en 15.desember. Í öllu falli er rétt að passa upp á að þessi uppbót skili sér. Ef uppbótin skilar sér ekki um mánaðarmótin er rétt að spyrja launagreiðanda hverju sætir og ef svör eru ekki fullnægjandi þá er rétt að setja sig í samband við stéttarfélagið fyrr en seinna. Fyrir þá sem eru atvinnulausir nú um mundir eða eru á svokallaðri hlutabótaleið er rétt að setja sig í samband við Vinnumálastofnun.

Við viljum biðjast afsökunar fyrir okkar hönd fyrir að þurfa fara þessa leið en annað er ekki boði vegna fyrrnefndra fyrirmæla og ekki annað að gera en gera það besta úr stöðunni í góðri samvinnu við félagsmenn og aðra sem erindi eiga við Báruna.