Við vinnum fyrir þig

Translate to

Nokkrar staðreyndir vegna umfjöllunar um endurskoðun á fjárreiðum Starfsgreinasambands Íslands og starfsloka framkvæmdastjóra

Vegna þeirra orða sem féllu í blaðagrein í Morgunblaðinu laugardaginn 28. maí 2011 þykir undirrituðum rétt að eftirfarandi komi fram:

Í lengstu lög höfum við viljað forðast opinbera umræðu um þau málefni sem rakin eru í umræddri blaðagrein, en nú er svo komið að við sjáum okkur ekki annað fært en svara þeirri kröfu sem þar kemur fram. Ljóst má vera að margir munu reyna allt til að gera undirrituð ótrúverðug í augum þeirra sem ekki þora að takast á við sannleikann í málinu.

 

Á framkvæmdastjórnarfundi Starfsgreinasambands Íslands (SGS) sem haldinn var fimmtudaginn 24. mars 2011 var lögð fram „Bókun vegna skoðunar reikninga SGS“ af þeim Finnboga Sveinbjörnssyni, sviðsstjóra þjónustusviðs SGS, Halldóru S. Sveinsdóttur, sviðsstjóra matvælasviðs SGS og Vilhjálmi Birgissyni, framkvæmdastjórnarmanni þar sem þess var farið á leit við framkvæmdarstjórn að undirrituð fengju heimild til að fá löggilta endurskoðendur til að fara yfir bókhald sambandsins 4 ár aftur í tímann.

Slíkt gekk ekki greiðlega en á fundinum fékkst samþykkt að nefnd, skipuð formanni SGS Birni Snæbjörnssyni, varaformanni SGS Hjördísi Þóru Sigurþórsdóttur og undirrituðum, ásamt endurskoðanda sambandsins, óháðum endurskoðanda og óháðum lögmanni myndi skoða bókhald ársins 2010. Nefndinni var falið að meta og taka ákvörðun um hvort ástæða væri til að rannsaka reikninga sambandsins 4 ár aftur í tímann.

Á framkvæmdastjórnarfundi þriðjudaginn 10. maí 2011 var lögð fram frá óháðum endurskoðanda sem fenginn var til verksins (Deloitte) „Skýrsla um könnun á bókhaldi Starfsgreinasambands Íslands 2010“ og „Minnisblað“ frá óháðum lögmanni, Páli Arnóri Pálssyni hrl.

Í skýrslu Deloitte eru meðal annars gerðar athugasemdir við óútskýrðan erlendan ferðakostnað sem stofnað var til af Skúla Thoroddsen framkvæmdastjóra SGS á árinu 2010. Þar koma fram ófullnægjandi skýringar á gjaldfærðum kostnaði að upphæð samtals kr. 779.285. Þess skal getið að í skýrslu Deloitte kemur fram að dagpeningagreiðslur til framkvæmdastjóra erlendis fyrir árið 2010 námu kr. 1.064.364 þrátt fyrir að kostnaður vegna ferðanna væri þar til viðbótar í mörgum tilfellum einnig greiddur.

Einnig bendir Deloitte á að ökutækjastyrkur framkvæmdastjóra innanlands nam samtals kr. 1.570.791 fyrir árið 2010. Þess ber að geta að framkvæmdastjóri fær að auki fastan bílastyrk kr.62.400 á mánuði á núvirði ( 600 km X 104 ) eða kr. 748.000 á ársgrundvelli. Í skýrslunni er vakin athygli á að framkvæmdastjóri miðar aksturs greiðslur ávallt við heimili sitt þrátt fyrir að ráðningastaður sé í Reykjavík og hann fái fastan bílastyrk miðað við það eins og áður hefur komið fram. Bílastyrkur til framkvæmdastjóra fyrir árið 2010 nam því um 2,3 miljónum króna.

Einnig er vakin á því athygli að ásamt risnu fékk framkvæmdastjóri greiddar kr. 422.745 í dagpeninga vegna ársins 2010 á ferðalögum framkvæmdastjóra innanlands. Bent er á að auk þess að greiddir séu dagpeningar innanlands að hálfu SGS var einnig greitt fyrir fæði og gistingu. Þá eru ótaldar beinar peningaúttektir af korti SGS á ferðum erlendis þar sem engir reikningar hafi verið lagðir fram til skýringa.

Gera má ráð fyrir að upphæðir úttekta með ófullnægjandi skýringum af hálfu framkvæmdastjóra yrðu umtalsvert hærri ef haldlitlar útskýringar hans í skýrslutöku hefðu ekki fallið honum í hag. Voru þar ferðir og kostnaður bæði erlendis og innanlands sem nam tugum ef ekki hundruðum þúsunda sem mikill vafi lék á hvort SGS ætti að bera kostnað af. Endurskoðendur leituðu ekki staðfestingar á því að ferðir innanlands og erlendis hafi verið farnar í embættiserindum.


Áríðandi er í þessu tilefni að geta þess að fjármunir SGS eru tilkomnir með greiðslum af félagsgjöldum félagsmanna frá verkalýðsfélögum hringinn í kringum landið sem þau greiða fyrir aðild sína að sambandinu. Rétt er einnig að geta þess að á árinu 2010 fóru um 89% af tekjum SGS í laun og utanlandsferðir, en sá mikli kostnaður var kveikjan að þeirri rannsókn sem undirrituð vildu að færi fram á bókhaldi SGS.


Í niðurstöðu lögfræðisviðs Deloitte kemur eftir farandi fram:

Lögfræðisvið Deloitte sendi einnig viðauka með endurskoðunarskýrslunni en þar kemur fram að hafi SGS verið ætlað að greiða fyrir ýmis persónuleg útgjöld starfsmanna sinna á ferðalögum innanlands eða erlendis, umfram það sem dagpeningar eiga að standa straum af, ásamt því að greiða ferðkostnað maka framkvæmdastjóra, formanns eða annarra starfsmanna SGS. Lögfræðingar Deloitte telja að skilgreina þurfi slíkt sérstaklega í starfsreglum eða lögum SGS. Risnukostnaður sem verður til með þessum hætti og greiddur er til starfsmanna SGS eru skattskyldar tekjur sem SGS ber að skila staðgreiðslu af.


Í niðurstöðum lögfræðisviðs Deloitte er bent á að meiri líkur en minni eru á því að bæði framkvæmdastjóri og fyrrverandi formaður SGS hafi farið út fyrir umboð sitt. Það hafi verið gert með því að gjaldfæra hjá SGS ýmsan ferðakostnað sem ekki voru heimildir fyrir samkvæmt starfsreglum eða lögum SGS. Þá eru einnig talda líkur á að framkvæmdastjóri og formaður SGS hafi farið út fyrir umboð sitt hjá félaginu. Leiddar eru að því líkur að þeir hafi jafnvel dregið að sér fjármuni sem ekki teljast eðlilegur risnu eða ferðakostnaður hjá SGS. Líkur eru á að slíkt teljist varða við lög.


Í áliti
frá óháðum lögmanni SGS, Páli Arnóri Pálssyni hrl. kemur eftir farandi fram:

Lögmaður SGS telur að vel hafi tekist til hjá Deloitte þegar kemur að samantekt og útskýringum á úrlausnar- og ágreiningsefni sem takast þarf á við. Slík samantekt og niðurstaða myndi væntanlega auðvelda ákvarðanatöku framkvæmdastjórnar SGS. Telur hann skýrsluna og viðaukann gefa glögga mynd af miklum ferðakostnaði framkvæmdastjóra, einkum og sér í lagi erlendis. Ennig er í skýrslunni skýr mynd af kostnaði fyrrverandi formanns og annarra framkvæmdastjórnarmanna SGS, sem ekki er mikill. Þá telur hann skýrsluna sýna ákveðna veikleika í reglum SGS varðandi kostnað og heimildir framkvæmdastjórans. Þá segir lögmaðurinn einnig ljóst að kostnaður sá er framkvæmdastjóri skapaði SGS fer fram úr því sem eðlilegt má teljast og er að því virðist heimildarlaus í þeim úttektum miðað við niðurstöður skýrslunnar.


Í niðurstöðu lögmannsins kemur fram að hann sé sammála flestu því sem skýrslan varpar ljósi á. Einnig tiltekur hann að í áliti lögfræðisviðs Deloitte komi fram ábendingar um ólögmæti úttekta og kostnaðarfærslna hjá framkvæmdastjóra SGS, og telji lögmaðurinn skýringar framkvæmdastjórans ekki duga til að útiloka brot gagnvart SGS.


Niðurstaða lögmanns SGS er áþekk niðurstöðu lögfræðisviðs Deloitte þ.e. að kostnaður sá sem framkvæmdastjóri hefur látið SGS greiða fyrir virðist hafa farið langt fram úr því sem eðlilegt má teljast. Hægt er að færa rök fyrir því að um fjárdrátt og umboðssvik hafi verið að ræða.

Niðurstöður Deloitte og Páls A. Pálssonar eru alveg skýrar. Fjárdráttur og umboðssvik er grafalvarlegt mál sem ekki verður við unað. Þarna var framið lögbrot sem við teljum okkur ekki geta varið.

 

 


Á vinnuréttarvef ASÍ kemur eftirfarandi fram:


“Telja verður að atvinnurekandi hafi til þess fulla heimild að víkja manni úr starfi ef hann verður uppvís af refsiverðri háttsemi í starfi og þurfi ekki sérstaka áminningu. Gjaldkeri dregur sér fé, afgreiðslumaður hnuplar úr verslun. Sakir verða þá að liggja ljósar fyrir við brottrekstur og ber atvinnurekanda að sýna fram á þær.”

Undirrituð líta á þetta mál sem trúnaðarbrot og umboðssvik þar sem farið er langt fram yfir heimildir og þar með brot á starfsskyldum og ráðningarsamingi og lögðu því fram eftirfarandi tillögu við framkvæmdastjórn SGS.


Tillaga um starfslok framkvæmdastjóra

„Að ráðningarsamningi við framkvæmdarstjórann verið rift vegna brota á starfsskyldum, er varða fjárdrátt og umboðssvik. Að auki verði þess krafist að framkvæmdastjóri greiði til baka óheimilar úttektir vegna ársins 2010. Framkvæmdarstjórn ber skylda til að kæra málið til lögreglu enda um saknæmt athæfi að ræða samkvæmt áliti tilkvaddra endurskoðenda og lögfræðinga.“

Á fundinum óskuðu undirrituð eftir því að fá bókað í fundargerð af hverju framkvæmdarstjórn teldi ekki fært að fylgja málinu eftir eins og kemur fram í tillögu okkar. Sömuleiðis var óskað eftir að rökstuðningi fyrir því að framkvæmdastjóri yrði ekki sóttur til saka fyrir umrædd brot yrði bókaður í fundargerð. Okkur til mikilla vonbrigða var ekki fallist á slíkar bókanir þar sem efnisleg umræða hefði þegar farið fram um tillögur fundarins.


Lokaorð

Sem formenn stéttarfélaga hafa undirrituð þurft að leiðbeina félagsmönnum okkar sem hafa orðið uppvísir af ýmsum brotum gegn atvinnurekanda sínum. Þetta eru vandasöm og viðkvæm mál sem varða réttindi félagsmannsins og hvort mögulegt sé að verja hann í slíkri stöðu.

Verði starfsmaður uppvís af þjófnaði er málið nær undantekningalaust kært til lögreglu af vinnuveitanda og starfsmanninum vikið úr starfi. Lögfræðingar stéttarfélaga benda á að verði menn uppvísir að slíkum brotum hafi þeir fyrirgert rétti sínum til uppsagnarfrests og megi vísa fyrirvaralaust úr starfi.

Staðreyndir skýrslunnar blasa við, framkvæmdastjóri og fyrrverandi formaður SGS fóru óvarlega með fjármuni SGS, niðurstöður skýrslunnar og álit lögfræðinga staðfesta að svo sé. Lausleg könnun okkar hefur því miður einnig leitt í ljós að árið 2010 var engin undantekning þegar kemur að meðferð framkvæmdarstjóra og fyrrverandi formanns á fjármunum SGS. Má í því samhengi benda á greiðslur fyrir viðgerð á bíl fyrrverandi formanns SGS, Kristjáns Gunnarsonar og gjafabréf til framkvæmdastjóra SGS án nokkurrar heildar framkvæmdastjórnar SGS. En það eru atriði sem koma fram í bókaldi SGS fyrir árið 2009 eftir lauslega yfirferð þess.

Þrátt fyrir þessar niðurstöður endurskoðenda og lögmanna og ofangreinda tillögu undirritaðra,samþykkti meirihluti framkvæmdastjórnar SGS að ljúka málinu með starfslokasamningi við framkvæmdastjóra þar sem honum yrðu greidd laun og önnur réttindi í uppsagnarfresti. Honum yrði eingöngu gert að greiða til baka kr. 526.889. Hvorki var tekin ákvörðun um að skoða málefni fyrrverandi formanns sambandsins, Kristjáns Gunnarssonar, né fleiri ár aftur í tímann þrátt fyrir að lausleg skoðun á bókhaldi fyrri ára gæfi fullt tilefni til.

Nú er svo komið innan framkvæmdastjórnar SGS og verkalýðshreyfingarinnar að þau brot sem liggja fyrir í skýrslu Deloitte og í minnisblaði óháðs lögmanns SGS, skipta minnstu máli í umræðunni, verknaðurinn sjálfur er orðinn aukaatriði. Á meðan gengur rógsherferð gegn þeim sem hófu rannsóknina sem virðist eingöngu til þess fallin að gera okkur ótrúverðug og málstað okkar veikan.

Allt frá því rannsókn málsins hófst hafa undirrituð mátt þola að vera rægð fyrir það eitt að vilja koma sannleikanum á framfæri. Hart hefur verið vegið að æru okkar innan verkalýðshreyfingarinnar og lítið gert til að leiðrétta þær rangfærslur sem komið hefur verið af stað, en niðurstöður rannsóknarinnar tala sínu máli.

Virðingarfyllst,

Finnbogi Sveinbjörnsson, sviðsstjóri þjónustusviðs SGS og formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, Halldóra S. Sveinsdóttir, sviðsstjóri matvælasviðs SGS og formaður Bárunnar-stéttarfélags Vilhjálmur Birgisson fulltrúi í framkvæmdastjórn SGS og formaður Verkalýðsfélags Akraness.