Við vinnum fyrir þig

Translate to

Ný hagspá ASÍ 2020-2022

Í ár dregst verg landsframleiðsla saman um 7,9% í sögulegum samdrætti, þeim mesta frá árinu 1920. Gera má ráð fyrir hægum viðsnúningi í efnahagslífi á næsta ári en efnahagsleg viðspyrna mun þó alfarið ráðast af getu yfirvalda hérlendis og erlendis til að ná böndum á útbreiðslu COVID-19. Spá ASÍ gerir ráð fyrir því að síðari hluta næsta árs verði faraldurinn á undanhaldi og að millilandaferðalög hafi tekið við sér að nýju. Þetta er sett fram með þeim fyrirvara að það er ekki í valdi ASÍ að spá fyrir um þróun COVID-19. Að teknu tilliti til þessa mælist hagvöxtur þó einungis 1,8% á næsta ári en efnahagslegur bati mun verða merkjanlegri árið 2022 með 3,2% vexti þjóðarútgjalda og 3,4% hagvexti.

Mikil óvissa ríkir um efnahagslega framþróun um þessar mundir. Ómögulegt er að segja til um útbreiðslu COVID-19, afléttingu ferðatakmarkana, þróun bóluefnis og fleiri aðgerða sem hafa lykiláhrif á efnahagslífið. Spá ASÍ er ein sviðsmynd en horfurnar gætu hæglega verið bjartari eða dekkri.

Útflutningur dregst saman um 28% milli ára og bati verður hægari en væntingar voru um í fyrstu. Spáð er 9,2% vexti útflutnings á næsta ári og 11,4% árið 2021 en sá vöxtur byggir á því að farið verði að rofa til í millilandaferðalögum á síðari hluta næsta árs.

Góð fjárhagsstaða heimila í aðdraganda faraldursins studdi við einkaneyslu á þessu ári. Samdráttur í einkaneyslu mældist eingöngu 4% á fyrri helmingi ársins 2020 en útlit er fyrir að einkaneyslan dragist meira saman á síðari hluta ársins. Skýr mynd af fjárhagsstöðu heimilanna liggur ekki fyrir en ljóst er að gríðarlegur fjöldi heimila hefur orðið fyrir þungu höggi í kjölfar COVID-19 með vaxandi atvinnuleysi og tekjumissi. Vaxtalækkanir, greiðsluhlé lána, úttekt séreignasparnaðar og fleiri ráðstafanir hafa létt undir með heimilum og stutt neyslu þeirra yfir sumarmánuðina. Þó er hætta á að afleiðingar fjárhagsvanda komi fram á næsta ári þegar atvinnulausir missa tekjutengdar atvinnuleysistryggingar og draga mun úr áhrifum af öðrum úrræðum á borð við greiðsluhlé. Spáð er 5,3% samdrætti í einkaneyslu á þessu ári og útlit er fyrir að vöxtur verði hægur á næsta ári eða einungis 1,7%.

Hrun í komum ferðamanna hefur haft alvarlega afleiðingar á vinnumarkaði. Viðkvæmar aðstæður ríktu á vinnumarkaði áður en útbreiðsla Covid-19 gerði vart við sig en atvinnuleysi hafði þegar byrjað að aukast á síðasta ári. Alls voru yfir 18 þúsund einstaklingar án atvinnu í september mánuði og þar af höfðu 3.274 verið án atvinnu í meira en tólf mánuði. Atvinnuleysi mælist hátt út spátímann en samkvæmt spá ASÍ verður 7,8% atvinnuleysi á þessu ári og mun það fara vaxandi fram á næsta ár þegar það verður 8,6%. Draga mun úr atvinnuleysi 2022 þegar það fer í 6,9% en sá bati á vinnumarkaði er háður viðsnúningi í ferðaþjónustu.

Verðbólga hefur farið vaxandi á árinu og mældist 3,6% í október. Veiking á gengi krónunnar hefur leitt til verðhækkana á innfluttum vörum en á móti hefur dregið úr verðbólguþrýstingi með lægra hrávöruverð og lækkun vaxta. Verðbólga verður yfir markmiði Seðlabankans á næsta ári, um 3,3% og draga mun úr verðbólguþrýstingi er líður á árið. Árið 2022 má búast við að hún verði í kringum 2,5% eða í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Horfur í efnahagsmálum – hagspá ASÍ 2020-2022