Ný íbúð Sjúkrasjóðs Bárunnar
Sjúkrasjóður Bárunnar hefur fest kaup á íbúð að Sóltúni 28 í Reykjavík fyrir skjólstæðinga sjóðsins. Íbúðin er fyrst og fremst hugsuð fyrir þá sem einhverra hluta vegna þurfa að dvelja lengri eða skemmri tíma í Reykjavík af heilsufarsástæðum. Í mörgum tilvikum kann að vera ódýrara að leigja íbúðina en að keyra á milli oft í viku.
Íbúðin er á þriðju hæð og er þriggja herbergja og vel búin. Lögð var áhersla á að skapa gott og notalegt umhverfi þar sem fólki getur liðið vel. Húsbúnaður tekur mið af þörfum hreyfihamlaðra jafnt sem annarra og fært er fyrir hjólastóla um íbúðina. Aðgengi er gott, bæði að húsinu og innan dyra. Íbúðinni fylgir bílastæði í kjallara og gengur lyfta þaðan og upp.
Að öðru leiti er íbúðin leigð almennt eins og önnur orlofshús félagsins og fellur þá undir reglur um útleigu almennra orlofshúsa.
Umsjón er með íbúðinni og er hægt að panta lín og handklæði hjá umsjónaraðila á kr. 900 fyrir hvert sett. Panta þarf með fyrirvara í síma: 581 1130
Helgarleiga er kr. 15,000 og vikuleiga kr. 20,000
Íbúðin verður leigð frá og með 16. mars 2012
Úthlutunarreglur íbúða og orlofshúsa Bárunnar, stéttarfélags
1. Orlofsíbúðir Bárunnar, stéttarfélags eru til útleigu fyrir félagsmenn Bárunnar sem greitt hafa til félagsins í eitt ár hið minnsta.
2. Leigja má íbúðirnar sex mánuði fram í tímann, sami aðili má aðeins skrá sig fyrir einni viku í senn. Sé um lengri tíma að ræða þarf að leggja umsóknina fyrir stjórn sjúkrasjóðs.
3. Leigjendum skulu kynntar þær umgengnisreglur sem í gildi eru ásamt þeirri ábyrgð sem hann ber við leigutöku (sjá leigusamning og reglur sem hanga upp í íbúðinni).
4. Þurfi sjúklingur á íbúðinni að halda á þeim tíma sem leigjanda var úthlutað íbúðinni, er leigjanda skylt að láta honum eftir íbúðina, enda liggi fyrir læknisvottorð sem sanni þörfina og það sé gert með tíu daga fyrirvara. Hámarksdvöl sjúklings eru tvær vikur nema brýnar ástæður liggi að baki.
5. Leigusamning skal greiða ekki síðar en sjö dögum fyrir útleigudag. Hafi greiðsla ekki borist fyrir þann tíma er heimilt að leigja íbúðina öðrum.
6. Leigutaka er óheimilt með öllu að framselja leigusamning án samþykkis leigusala. Slíkt getur valdið því að viðkomandi lendi á bannlista við útleigu íbúða. Annað sem valdið getur banni við útleigu til félagsmanna; ítrekuð kvörtun um slæma umgengni, kvartanir um ónæði vegna veisluhalda þar sem ekki hefur verið hirt um tiltal, skemmdir á íbúð eða innanstokksmunum sem ekki hefur verið tilkynnt um eða gerð grein fyrir.