Ný verðkönnun á páskaeggjum – allt að 57% verðmunur
Mesti verðmunur á páskaeggjum reyndist 57% en algengast var að sjá um 30% verðmun á hæsta og lægsta verði páskaeggja í nýrri verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu á þriðjudaginn. Bónus var oftast með lægsta verðið en Samkaup-Úrval var oftast með hæsta verðið. Flest páskaeggin í könnuninni voru fáanleg hjá Fjarðarkaupum en fæst í Bónus.
Bónus var með lægsta verðið á 26 af þeim 38 tegundum páskaeggja sem kannaðar voru. Hæsta verðið í könnuninni var oftast hjá Samkaupum-Úrval eða á 21 páskaeggi af 38. Benda má á að í um þriðjungi tilvika er undir 2 kr. verðmunur á Bónus og Krónunni, þ.e.a.s. að eggin hjá Krónunni eru allt að 2 kr. dýrari en hjá Bónus.
Oftast um 30% verðmunur á hæsta og lægsta verði
Oftast var um 30% verðmunur á hæsta og lægsta verði páskaeggjanna í könnuninni. Sem dæmi má nefna að 32% verðmunur var á 480 gr. Nizza karamellu og bragðarefs házkaeggi frá Nóa Síríus sem var ódýrast á 2.115 kr. hjá Bónus en dýrast á 2.789 kr. hjá Samkaupum-Úrvali, en það er 674 kr. verðmunur. Þá var 38% verðmunur á 450 gr. Appolo fylltu lakkrís páskaeggi nr. 5 frá Góu sem var ódýrast á 1.445 kr. hjá Bónus en dýrast á 1.999 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 554 kr. verðmunur. Freyju rísegg nr. 4 var ódýrast á 1.087 kr. hjá Bónus en dýrast á 1.449 kr. hjá Hagkaupum sem er 33% verðmunur.
Minnstur verðmunur í könnuninni var á Góu páskaeggi nr. 4 sem var ódýrast á 1.095 kr. hjá Krónunni en dýrast á 1.229 kr. hjá Hagkaupum sem er 12% verðmunur. Mestur verðmunur að þessu sinni var 57% á Nóa Síríus páskaeggi nr. 3 og Freyju ríseggi nr. 9, en páskaeggið frá Nóa Síríus var dýrast hjá Víði og ódýrast hjá Bónus en Freyju eggið var ódýrast hjá Krónunni en dýrast hjá Samkaupum-Úrvali.
Sjá nánar niðurstöður í töflu.
Verðkönnunin tók til algengra páskaeggja frá íslenskum framleiðendum.
Könnunin var gerð þriðjudaginn 24.mars í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Hagkaupum, Fjarðarkaupum, Samkaupum-Úrvali, Nóatúni og Víði.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.