Nýr kjarasamningur fyrir landbúnaðarverkafólk
Bændasamtök Íslands hafa samið við Starfsgreinasamband Íslands og um nýjan kjarasamning fyrir starfsfólk sem vinnur almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum. Samningurinn er afturvirkur og gildir frá og með 1. júní 2011 til 31. janúar 2014. Fyrirvari er á kjarasamningnum þar til stjórn BÍ hefur samþykkt hann en hún fundar í þessari viku.
Búfræðingar fá námið metið til launahækkunar
Við samþykkt kjarasamningsins er kveðið á um eingreiðslu að upphæð kr. 50 þúsund fyrir hvern starfsmann í fullu starfi sem er við störf í maí 2011 og miðast greiðslan við fullt starf í mánuðinum mars-maí 2011. Sú nýlunda er í samningnum að þeir starfsmenn sem lokið hafa búfræðinámi, fiskeldisnámi eða tveggja ára háskólanámi við tamningar raðast í hærri launaflokk en almennir landbúnaðarverkamenn. Fiskeldisfræðingar og tamningamenn fengu sambærilega samninga í kjarasamningum við SA sl. vor.
Byrjunarlaun landbúnaðarverkafólks verða 184.711 krónur
Byrjunarlaun búfræðinga eru 197.812 krónur en með 7 ára starfsreynslu er taxtinn 205.936 krónur. Almenn byrjunarlaun landbúnaðarverkamanna eru 184.711 krónur og 192.030 krónur eftir 7 ára starf. Hámarksgreiðsla fyrir fæði og húsnæði er 2.040 krónur á dag í nýja samningnum fyrir 18 ára og eldri. Grunnlaun 17 ára unglinga verða 175.475 krónur á mánuði og 14 ára 120.062 krónur.
Nefnd ætlað að meta fræðslumál starfsmanna í landbúnaði
Sérstök bókun í samningnum var gerð um það að setja á laggirnar fjögurra manna nefnd sem mun fjalla um fræðslumál starfsmanna í landbúnaði. Nefndinni er ætlað að skoða framboð á námskeiðum fyrir landbúnaðarverkamenn og koma með tillögur um úrbætur telji nefndin ástæðu til þess. Þá er nefndinni ætlað að ræða hvort meta eigi samþykkt námskeið til launahækkana.
Samningurinn BÍ og SGS er aðgengilegur á pdf-skjaliá vef Bændasamtakanna en þar má m.a. sjá launatöflur og ítarlegri ákvæði.
Samningur BÍ og Framsýnar, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Þórhafnar er samhljóða samningi við SGS. Hann er aðgengilegur hér.
Tekið af heimasíðu Bændasamtaka Íslands.