Við vinnum fyrir þig

Translate to

Öflug verkalýðshreyfing á Suðurlandi?

Verslunarmannafélag Suðurlands samþykkti á aðalfundi í apríl síðastliðnum að fara í samningaviðræður við, annars vegar Bárunna, stéttarfélag og hins vegar VR um sameiningu.

Ástæða fyrir því er að félagið er of lítil eining til þess að geta tekist á við þau stórauknu verkefni sem félögin þurfa að sinna. Í framhaldi af þessu hefur ákveðin sameiningarnefnd í félaginu verið að störfum. Nefndin hefur nú  skilað af sér. Fyrir liggur niðurstaða stjórnar félagsins að gengið verði til viðræðna um sameiningu félagsins og VR. Takist samningar skal stjórn félagsins leggja tillögu þar undir atkvæði félagsmanna í allsherjaratkvæðagreiðslu.

Þetta eru töluverð tíðindi og mjög skiptar skoðanir eru um þetta hér á okkar svæði.

Báran, stéttarfélag, FIT (félag iðn og tæknigreina) og Verslunarmannafélag Suðurlands hafa rekið saman Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna frá 1998. Meginmarkmiðið með samrekstrinum er að halda uppi góðri þjónustu við félagsmenn. Samstarfið hefur gengið vel og hafa félögin séð sér hag í þessum rekstri. Skrifstofan er öflug með góðu og ósérhlífnu starfsfólki þar sem allir vinna saman.

Báran, stéttarfélag á sér sögu allt til ársins 1903 með stofnun Bárunnar á Eyrarbakka. Báran varð til í núverandi mynd þann 25. Júní 2002. Félögin sem hafa sameinast undir merkjum félagins er Bílstjórafélagið Ökuþór, Verkalýðs og sjómannafélagið Bjarmi Stokkseyri, Báran Eyrarbakka og Verkalýðsfélagið Þór Selfossi. Félagssvæðið er Árnessýsla að undanskyldu Ölfusi.

Báran, stéttarfélag er ört vaxandi félag sem dæmi á árinu 2010 voru þeir sem greiddu til félagsins 2215 en árið 2015 voru þeir orðnir 3088. Á þessum fimm árum fjölgar félagsmönnum um 39%. Kynjaskipting er nokkuð jöfn og starfa félagsmenn í fjölbreyttu starfsumhverfi, t.d ferðþjónustu, umönnun, matvælaiðnaði, byggingariðnaði og svo framvegis.

Þegar sameiningarviðræður eiga sér stað fara í gang umræður um kosti og galla þeirra félaga sem við á. Hvert er hlutverk stéttarfélaga. Hlutverk þeirra er skilgreint í lögum félaganna. Í lögum Bárunnar er skýrt að tilgangur félagsins er.

  • Að sameina alla starfandi launamenn sem starfa á félagssvæðinu.
  • Að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna.
  • Að vinna að fræslu og menningamálum.

Algengustu spurningar í sameiningarviðræðum eru um þau réttindi sem félögin bjóða upp á. Samanburður er oft erfiður og ekki einfalt að bera saman réttindi. Stéttarfélögin bera öll hag félagsmannsins fyrir brjósti og gera eins og hægt er til þess að bæta í réttindi. Hjá Bárunni fá allir sama rétt sem greitt hafa til félagsins af heildartekjum sem eru 244.000 og yfir á mánuði.  Það fá allir einn punkt á mánuði til uppsöfnunar á orlofspunktum óháð tekjum. Leiga á orlofshúsum félagsins er mjög hófleg. Vikuleigan er 18-20.000. Helgarleigan er 12-15.000. Sjúkrastyrkir eru hvert ár kr. 70.000. Þegar félagsmaður fær réttindi úr einum sjóði félagsins skerðir það ekki réttindi úr öðrum sjóði. Oftast eru réttindin mjög svipuð þegar heildarpakkinn er skoðaður. Ákvarðanir um aukin réttindi eru tekin á aðalfundi hvers félags og eru breytileg eftir stöðu félaganna. Það er í valdi félagsmanna að taka ákvörðun þegar ársreikningar liggja fyrir hvar má betur gera í réttindum.

Í stóra samhenginu hlýtur þetta að snúast um markmiðið með sameiningu. Hvort félagið er betur til þess fallið að gæta hagsmuna svæðisins, félagsins og félagsmannsins. Verður þjónustan öflugri, persónulegri og/eða betri. Suðurland er landshluti tækifæranna. Stórt félag á Suðurlandi, öflugari verkalýðshreyfing og góð þjónusta í nærumhverfinu með viðtalstímum austur að Lómagnúp eru mjög álitlegir kostir og vert að hugsa um. Stjórn Bárunnar, stéttarfélags hvetur félagsmenn að íhuga vel kosti þess að sameinast og telur að ákvörðunartaka um stór mál verði betur varið í heimabyggð?

F.h stjórn Bárunnar, stéttarfélags

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir