Oftast 30-60% verðmunur á jólabókum
Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðsamanburð á jólabókum í 12 bókabúðum og dagvöruverslunum víðsvegar um landið sl. þriðjudag. Kannað var verð á 63 bókatitlum sem gefnir hafa verið út á árinu. Mikill verðmunur var á milli verslana. Hann var í flestum tilvikum 30-60% á hæsta og lægsta verði. Lægsta verðið var oftast að finna í versluninni Bónus eða á 25 titlum af 63, en sú verslun var einnig með fæsta bókatitla á boðstólum eða aðeins 29 af þeim 63 sem skoðaðir voru. Hæsta verðið var oftast að finna í bókabúðinni Iðu Lækjargötu eða í um helmingi tilvika. Bókabúðin Penninn- Eymundsson neitaði þátttöku í könnuninni.
Bónus var oftast með lægsta verðið á 25 titlum af 63, þar á eftir var Bóksala stúdenta með lægsta verðið á 16 titlum af 63. Iða Lækjagötu var oftast með hæsta verðið í könnuninni á 32 titlum af 63. Bóksala stúdenta og Mál og menning Laugavegi voru með hæsta verðið á 29 titlum af 63.
Mestur verðmunur í könnuninni var á sögubókinni Dauðinn í Dumbshafi, sem var á á 4.193 kr. í Bónus en dýrust var hún í Hagkaup á 6.980 kr. sem er 2.787 kr. verðmunur eða 66%. Þýdda skáldverkið Djöflanýlendan var á lægsta verðinu hjá Nettó á 3.518 kr. en dýrust hjá Máli og menningu á 5.790 kr. sem er 2.272 kr. verðmunur eða 65%. Einnig var mikill verðmunur á matreiðslubókinni, Eldum íslenskt með kokkalandsliðinu. Hún kostaði 3.241 kr. í Bónus en var dýrust í Hagkaup á 5.199 kr. sem er 1.958 kr. verðmunur eða 60%.
Minnstur verðmunur í könnuninni var á hljóðbókinni, Sólskinsbarn eftir Huldu Ólafsdóttur sem kostaði ýmist 2.490 kr. eða 2.499 kr. þar sem að hún var fáanleg. Mun meiri verðmunur var á ljóðabókinni Ísafjörður ægifagur sem var á lægsta verðinu hjá Office 1 2.039 kr. en dýrust hjá Griffli á 2.207 kr. sem var 8% verðmunur.
Mikill verðmunur á vinsælum titlum
Sem dæmi um mikinn verðmun á vinsælum titlum má nefna að skáldsagan Hjarta mannsins eftir Jón Kalman var ódýrust á 3.699 kr. hjá Krónunni en dýrust á 5.880 kr. hjá A4, verðmunurinn er 2.181 kr. eða 59%. Einnig var mikill verðmunur á Einvíginu eftir Arnald Indriðason sem var ódýrust á 3.794 kr. hjá Bónus en dýrust á 5.990 kr. hjá A4 sem var 58% verðmunur. Bókin Brakið eftir Yrsu Sigurðardóttur var ódýrust á 3.829 kr. hjá Bóksölu stúdenta og dýrust á 5.890 kr. hjá Office 1 sem var 54% verðmunur. Einnig má nefna stelpubókina Stelpur eftir Kristínu Tómasardóttur sem var ódýrust á 3.395 kr. hjá Bónus en dýrust á 4.990 kr. hjá A4, Hagkaupum og Máli og menningu sem er 47% verðmunur.
Mikill munur á vöruúrvali
Af þeim bókatitlum sem könnunin náði til voru flestir þeirra fáanlegir hjá Máli og menningu Laugavegi eða 58 titlar af 63. Hjá Iðu Lækjargötu voru 56 titlar fáanlegir og hjá Bóksölu stúdenta voru 55 titlar fáanlegir. Fæstir titlar í könnuninni voru fáanlegir í Bónus eða aðeins 29 af 63 og hjá Forlaginu Fiskislóð 31 af 63.
Penninn – Eymundsson neitaði þátttöku í könnuninni.
Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum á sama tíma: Máli og menningu Laugavegi, Forlaginu Fiskislóð, Bóksölu stúdenta, Griffli Skeifunni, Office 1 Skeifunni, Nettó Borgarnesi, Hagkaupum Akureyri, Bónus Egilsstöðum, Krónunni Selfossi, A4 Smáratorgi, Iðu Lækjargötu og Samkaupum Úrval Hafnarfirði. Penninn–Eymundsson neitaði þátttöku í könnuninni.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Neytendur ættu einnig að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört hjá verslunum á þessum árstíma.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ
Tekið af heimasíðu ASÍ