Við vinnum fyrir þig

Translate to

Ræstingafólkið greiðir niðurskurð sveitarfélagsins

Eftirfarandi grein um ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar að segja upp kjörum í ræstingum var birt í Dagskránni í dag:

Sveitarfélagið Árborg hefur sagt upp starfsmönnum í ræstingum á fjórum leikskólum í sveitarfélaginu.

Þann 8. mars sl. sendi Báran, stéttarfélag áskorun til Sveitarfélagsins Árborgar um að endurskoða þá ákvörðun að segja upp kjörum í ræstingum á Leikskólunum Árbæ, Álfheimum, Æskukoti og Brimveri.
Í kjarasamningum milli aðila sem undirritaður var í júni 2011 var samið um nýtt kerfi í ræstingum sem átti að leysa af eldra kerfi. Aðlögunartími fyrir nýtt kerfi var til 1. mars 2014. Sveitarfélagið er með þessu að framfylgja þessari breytingu sem varð á kjarasamningnum og taka til notkunar þetta svokallaða „nýja kerfi“.

Starfsmenn voru mjög ósáttir við þá uppmælingu/útreikninga sem lágu til grundvallar launaútreikum og þeim launakjörum sem áttu að taka gildi þegar nýtt kerfi tæki við. Báran, stéttarfélag ásamt þeim starfsmönnum sem um ræðir fóru í ákveðna faglega vinnu vegna þessara breytinga. Vinnan fólst í því að fara vel yfir nýja uppmælingu sem Árni Steinar Stefánsson starfsmaður Starfsgreinasambands Íslands framkvæmdi og bera mælinguna saman við þann tíma og þau störf sem mælingin nær yfir og leita leiða til sátta í þessu máli.

Við það að skipta gamla kerfinu út fyrir það nýja hefur í för með sér töluverðar breytingar á þeim kjörum þeirra sem í hlut eiga. Að skipta yfir í annað kerfi þarf ekki að þýða það að skerða launakjörin svo verulega að grundvöllurinn til þess að stunda þessi tilteknu störf er brostinn. Í stuttu máli þýðir þetta mjög mikla kjaraskerðingu hjá þeim starfsmönnum sem um ræðir og hefur Báran, stéttarfélag skorað á sveitarfélagið að endurskoða ákvörðun sína.

Sveitarfélagið hafnar þessum tillögum nánast að öllu leyti. Niðurstaðan er sú að fimm konur af þeim sex sem um ræðir munu láta af störfum því allt eru þetta konur sem uppsagnirnar ná til.
Báran, stéttarfélag harmar ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar og telur að vegið sé að þessum mannauði sem starfar hefur af alúð og samviskusemi allan sinn starfsaldur sem telur samanlagt 83 ár.

F.h. Bárunnar, stéttarfélags
Halldóra Sigr. Sveinsdóttir, formaður
Þór Hreinsson, skrifstofustjóri

 

Sjá einnig svar forsvarsmanns Árborgar:

Uppsögn á kjörum í ræstingum