Reiknivélar vegna breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum
Breytingar á lögum um virðisaukaskatt og almenn vörugjöld tóku gildi um ármót og ættu neytendur nú þegar að sjá þess merki í verðlagi hjá verslunum og þjónustuaðilum. Mikilvægt er að neytendur séu vel á verði og sýni söluaðilum aðhald svo tilætlaðar breytingar skili sér eins og vænta má í breytingum á verðlagi.
Breytingarnar eru tvíþættar. Annars vegar breytingar á virðisaukaskatti sem nú þegar ættu að hafa haft áhrif á verðlag á vörum og þjónustu og hins vegar afnám almennra vörugjalda sem ætla má að skili sér að fullu á næstu vikum.
Hér að neðan (á heimasíðu ASÍ) er að finna dæmi um áhrif breytinganna á verðlag og reiknivélar þar sem neytendur geta áætlað áhrif breytinganna á verð á ýmsum vörum og þjónustu. Rétt er að taka fram að reiknivélarnar eru settar fram til viðmiðunar fyrir neytendur og gera ráð fyrir óbreyttri hlutfallslegri álagningu söluaðila. Í þeim tilvikum þar sem vörugjaldið er föst krónutala ss. á sykri og sætum matvörum ráðast breytingar af álagningu söluaðila hverju sinni en reiknivélin áætlar þau lágmarks áhrif sem ætla má að breytingarnar hafa á verðlag.
Hér má nálgast reiknivélar vegna breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum.
Almennur virðisaukaskattur
Allflestar vörur og þjónusta bera almennan virðisaukaskatt sem lækkaði um áramót úr 25,5% í 24%. Verð lækkar um 1,2% vegna þessara breytinga. Hér má nefna vörur eins og föt og skó, lyf, húsgögn, húsbúnað, raftæki, áfengi, tóbak, snyrtivörur, tryggingar og þjónustu ýmsa þjónustu.
Dæmi af vörum og þjónustu þar sem virðisaukaskattur lækkar úr 25,5% í 24%
Vara Verð fyrir 1.jan. 2015 Verð eftir 1. jan. 2015
Skór 15.000 14.821
Hársnyrting 5.000 4.940
Bíll 3.500.000 3.458.167
Sófi 200.000 197.610
Lyf 3.000 2.964
Neðra þrep virðisaukaskatts
Neðra þrep virðisaukaskattsins hækkaði um áramót úr 7% í 11% og hækkar verðlag vara í þessu þrepi um 3,7% vegna þessa. Helstu liðir í þessu skattþrepi eru matur og óáfengar drykkjarvörur, veitinga- og gistiþjónusta, bleiur, bækur, dagblöð, tímarit og geisladiskar, heitt vatn og raforka til húshitunar, afnotagjöld útvarps- og sjónvarpsstöðva og aðgangur að vegamannvirkjum (Hvalfjarðargöng).
Dæmi af vörum og þjónustu þar sem virðisaukaskattur hækkar úr 7% í 11%
Vara Verð fyrir 1. jan. 2015 Verð eftir 1. jan. 2015
Nýmjólk 1 l. 129 134
Brauðostur 1 kg. 1.500 1.555
Bananar 1 kg. 289 300
Bleiur 1.400 1.452
Skáldsaga/kilja 2.990 3.100
Matvörur sem báru vörugjöld (sykurskatt)
Vörugjöld á sykur og sætar matvörur (sykurskattur) voru feld niður um ármót. Áhrif breytinganna á verð einstakra vara ræðst af því hversu mikinn sykur/sætuefni þær innihalda en vörugjald er að jafnaði 210 krónur á hvert kíló sykurs sem vara inniheldur. Um er að ræða vörur eins og sykur, gosdrykki, ís, sultur, sætabrauð, sælgæti, sætar mjólkurvörur o.fl. Virðisaukaskattur af þessum vörum hækkar jafnframt úr 7% í 11%. Miða má við að þeim mun sætari sem varan er þeim mun þyngra vegur afnám vörugjaldsins í verðinu og þeim mun meira ætti varan að lækka í verði. Vörur sem innihalda hlutfallslega lítinn sykur kunna hins vegar að hækka þar sem hækkun virðisaukaskatts á matvörur vegur þyngra en afnám vörugjaldsins.
Dæmi af matvörum þar sem vörugjald fellur niður og virðisaukaskattur hækkar úr 7% í 11%. Breytingar á verði ráðast af álagningu smásala en ættu að lágmarki að vera eftirfarandi:
Vara Verð fyrir 1. jan. 2015 Verð eftir 1. jan. 2015
Gosflaska 2 l 250 213
Gosflaska ½ l 130 123
Sykur 1 kg 400 182
Sultukrukka 400 g (ca. 50% sykur) 400 368
Sætt kex 300 g (ca. 30% sykur) 300 288
Ís 2 l 800 759
Skyr.is – 170 g. (ca. 12 gr. af sykri) 145 148
Stærri raftæki, bílavarahlutir og byggingavörur sem báru vörugjöld
Almenn vörugjöld sem lögð voru á stærri raf- og heimilistæki, ýmsar byggingavörur og bílavarahluti voru jafnframt feld niður að fullu um áramót auk þess sem virðisaukaskattur á þessum vöruflokkum lækkar úr 25,5% í 24%. Vörugjöld voru lögð á ýmist við innflutning eða hjá framleiðanda og voru hlutfallsleg. Hæst vörugjöld, 25% báru raftæki eins og sjónvörp, hljómflutningstæki og myndbandstæki en samspil niðurfellingar á vörugjöldum og lækkunar á virðisaukaskatti ætti að skila um 21% lækkun á þessum vörum. Ýmis stærri heimilistæki ss. þvottavélar, þurrkarar, eldavélar, kæliskápar og uppþvottavélar báru 20% vörugjöld og ættu breytingarnar að leiða til um 18% verðlækkunar á þessum vörum. Þá báru ýmsar byggingavörur eins og hreinlætistæki, gólfefni og flísar 15% vörugjöld sem og ýmsir bílavarahlutir og ætti verð á þessum vörum að lækka um 14% í kjölfar breytinganna.
Dæmi af raftæki þar sem vörugjald fellur niður og virðisaukaskattur lækkar úr 25,5% í 24%. Útreikningarnir og reiknivélarnar byggja á að hlutfallsleg álagning söluaðila haldist óbreytt.
Vara Verð fyrir 1. jan. 2015 Verð eftir 1. jan. 2015
Sjónvarp 70.000 55.331
Sjónvarp 150.000 118.566
Þvottavél 120.000 98.805
Uppvottavél 140.000 115.272
Vaskur 25.000 21.479
Parketgólf, fm. 6.000 5.155
Flísar, fm. 4.000 3.437
Tekið af heimasíðu ASÍ