
Rúmlega tvö þúsund hafa sótt um hlutabætur á Suðurlandi
Yfir 30 þúsund manns hafa sótt um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls. Þetta kemur fram í tölum frá Vinnumálastofnun. Flestar eru umsóknirnar úr ferðaþjónustu en yfir 12 þúsund starfsmenn í greininni hafa sótt um bætur. Úr verslun og vöruflutningum hafa yfir 6 þúsund umsóknir hafa borist.
Kynjaskipting umsækjenda er nokkuð jöfn. 55% umsækjenda eru karlmenn en 45% konur. Til samanburðar voru karlar 53% starfandi landsmanna í fyrra en konur 47%, samkvæmt tölum frá Hagstofu.
Ríflega þrír af hverjum fjórum umsækjendum eru íslenskir ríkisborgarar, en um 14% eru Pólverjar og 10% borgarar annarra ríkja. Í fyrra voru um 80% starfandi fólks hérlendis Íslendingar en 20% útlendingar. Endurspegla umsóknir um hlutabætur því betur samsetningu vinnumarkaðarins en umsóknir um atvinnuleysisbætur síðasta árið, þar sem hlutfall Íslendinga meðal umsækjenda hefur verið 63%.