Við vinnum fyrir þig

Translate to

Samanburður á æfingagjöldum

Mörg börn á landinu æfa íþróttir yfir vetrartímann. Verðlagseftirlit ASÍ tók saman hvað það kostar að æfa handbolta og fimleika hjá fjölmennustu íþróttafélögum landsins í þessum greinum. Mikill verðmunur er á hæsta og lægsta verði námskeiðanna en mestur er verðmunurinn 148% á 4 klst. fimleikanámskeiði fyrir 8-10 ára börn.

  
Fimleikar
Verðlagseftirlitið bar saman gjaldskrá fyrir 6-8 ára börn sem æfa 2 klst. á viku og fyrir 8-10 ára börn sem æfa 4 klst. á viku, en tekinn er saman æfingakostnaður fram að jólum (4. mánuðir). Ekki er tekið tillit til þess hvaða tegund fimleika sé verið að æfa (t.d. almenna, hóp- eða áhalda). Öll félögin eiga það sameiginlegt að setja saman gjaldskrá eftir fjölda klukkustunda sem æft er í viku hverri.
 
Dýrast er að æfa 2 klst. á viku fyrir 6-8 ára börn en það kostar 40.617 kr. hjá Gerplu en er ódýrast á 14.500 kr. hjá Hamri sem er 26.117 kr. verðmunur eða 180%. Dýrast er að æfa 4 klst. á viku fyrir 8-10 ára börn á 54.579 kr. hjá Gerplu en ódýrast á 22.000 kr. hjá Hamri sem er 32.579 kr. verðmunur eða 148%.
 
Handbolti
Verðlagseftirlitið tók saman gjaldskrá fyrir 4.,6. og 8. flokk í handbolta fyrir allan veturinn 2012-13. Ekki er tekið tillit til hvað félögin eru að bjóða upp á margar æfingar í viku, en ekki er mikill munur á fjölda æfinga milli félaga. Hjá 8. flokki er um 2-3 æfingar á viku að ræða, hjá 6. flokki eru þær 3 á viku og hjá 4. flokki 4-6 æfingar á viku auk þrekæfinga, hjá eldri börnunum.
 
Af þeim félögum sem bjóða upp á æfingar fyrir 8. flokk er dýrasta árgjaldið 45.000 kr. hjá Haukum en ódýrast á 22.000 kr. hjá KA sem er 23.000 kr. verðmunur eða 105%. Fyrir 6. flokk er gjaldið hæst á 55.000 kr. hjá ÍR en ódýrast 27.000 kr. hjá Umf. Selfoss sem er 28.000 kr. verðmunur eða 104%. Hjá 4. flokki er dýrasta árgjaldið 66.000 kr. hjá Gróttu en ódýrast á 40.000 kr. hjá Þór sem er 26.000 kr. verðmunur eða 65%. Hjá 4. flokki Fylkis kostar veturinn 50.000 kr. fyrir stráka og 53.000 fyrir stúlkur, annars er sama gjald hjá hinum félögunum fyrir bæði kynin.  
 
Árgjaldið hjá ÍBV er bæði fyrir handbolta og fótbolta.
 
Auk þess ber að athuga að hér er aðeins um verðsamanburð að ræða og sú þjónusta eða dagskrá sem í boði er á námskeiðum íþróttafélaganna er ekki metin.  Verðlagseftirlitið tekur heldur ekki tillit til safnanna sem íþróttafélögin standa fyrir og eða styrkja frá sveitarfélögunum, hvorki æfingagallar né keppnisgjöld eru með í gjaldinu sem borið er saman.
 
 
Sjá nánar í töflu á heimasíðu ASÍ
Tekið af heimasíðu ASÍ