Við vinnum fyrir þig

Translate to

Sameiginlegur fundur stéttarfélaganna á Suðurlandi

Halldór Grönvold IMG_3791 IMG_3793

Þau Halldór Grönvold og Dröfn Haraldsdóttir frá ASÍ komu í heimsókn í gær til að kynna verkefni til að stemma stigu við undirboðum á vinnumarkaði og eftirliti með kjarasamningum

Verið er að hleypa af stokkunum nýrri starfsemi stéttarfélaganna undir samheitinu Einn réttur – ekkert svindl þar sem markmiðið er að höfða til og fylgjast með fyrirtækjum þar sem grunur er um að verið sé að misnota erlent vinnuafl og ung fólk.

Hér er ekki um átak að ræða heldur verkefni sem í framtíðinni verður hluti af starfsemi stéttarfélaga og aðildarsambanda ASÍ. Þróun á vinnumarkaði hefur því miður verið með þeim hætti að kjarasamningsbrot og misnotkun vinnuafls er orðin að reglu, frekar en undantekningu í sumum atvinnugreinum. Við þessu þarf að bregðast fljótt þar sem verið er að vega að undirstöðum vinnumarkaðarins hér á landi og réttindum launafólks sem barist hefur verið fyrir gegnum árin og teljast orðið til mannréttinda í dag.

Á félagssvæðum stéttarfélaganna eru það fyrst og fremst fyrirtæki í ferðaþjónustu og veitingageiranum sem virðast eiga erfitt með að virða lög og kjarasamninga. Einnig er ástæða til að fylgjast með fyrirtækjum í byggingariðnaði en stéttarfélögin á höfuðborgarsvæðinu  hafa í vaxandi mæli orðið að grípa til harkalegra aðgerða vegna innfluttra starfsmanna sem ekki fá greitt samkvæmt kjarasamningum.

Það er ljóst að fyrirtæki í þessum greinum þurfa að hugsa sinn gang ef ekki á illa að fara. Þessi hegðun skekkir mjög samkeppnisaðstöðu milli fyrirtækja sem starfa eftir lögum og reglum samfélagsins og virða kjarasamninga. Fyrirtæki sem hafa sitt á hreinu og skila sínu til samfélagsins eiga erfitt með að keppa á jafnréttisgrundvelli við þau fyrirtæki sem kjósa að fara á svig við gildandi kjarasamninga í þeim eina tilgangi að auka hagnað eigenda sinna. Einnig sýnir reynslan að sömu fyrirtæki og stunda undirboð á markaði eru gjarnan við sama heygarðshornið þegar kemur að því að greiða til samfélagsins. Þessi fyrirtæki verða seint talin til burðarása íslenks atvinnulífs þrátt fyrir stórar yfirlýsingar í fjölmiðlum um hvað þau séu að leggja til samfélagsins og þau séu vaxtarbroddur íslenks efnahags. Það er einfaldlega rangt, þessi fyrirtæki eru afætur á samfélaginu og allir tapa á starfsemi þeirra nema hugsanlega eigendurnir sem oft taka inn skjótfenginn gróða en skilja aðra eftir með tapið. Þar verður launafólk oft illa úti.

Fyrirtæki á Suðurlandi og víðar meiga reikna með að fá eftirlitsfulltrúa í heimsókn án fyrirvara og þurfa að svara erfiðum spurningum séu kjaramál ekki í lagi og mjög verði gengið hart eftir að það sé lagað sem ekki stenst lög eða kjarasamninga.