Samið við sveitarfélögin
Þann 1. júlí sl. undirritaði Starfsgreinasamband Íslands samninga við Samband Íslenskra sveitarfélaga í fyrir hönd aðildarfélaga sinna m.a. Bárunnar stéttarfélags.
Samningurinn gildir frá 1. maí 2014 til 30. apríl 2015 og koma launahækkanir í tveimur skrefum þannig að fyrsta hækkun gildir frá 1. maí 2014 og síðan verða aftur breytingar á launatöflu um áramótin 2014/2015. Breytingar voru gerðar á tengitöflu og launatöflu þannig að misjafnt er hvernig hækkanirnar koma út hjá einstaka starfsfólki en krónutöluhækkanirnar á tímabilinu eru frá tæplega 10.000 krónum upp í 28.000 krónur á mánuði. Til að dreifa hækkuninni með sem sanngjörnustum hætti var starfsmatinu breytt þannig að færri stig þarf nú til að hækka um launaflokk. Kynningarefni með dæmum verður sent von bráðar á félagsmenn. Desemberuppbót hækkar um 15,9%, og verður á árinu 93.500 krónur og framlag sveitarfélaganna í starfsmenntunarsjóði hækkar einnig um 0,1% eins og í öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á árinu.
Ákveðið var að halda sameiginlega rafræna atkvæðagreiðslu og skal henni lokið fyrir 22. júlí næstkomandi. Félagar fá sent heim kynningaefni og lykilorð vegna hennar.
Samninginn í heild sinni má nálgast hér.