Við vinnum fyrir þig

Translate to

Samninganefnd Bárunnar stéttarfélags fagnar skilningi ráðamanna

Samninganefnd Bárunnar stéttarfélags á Suðurlandi fagnar orðum félagsmálaráðherra um að svigrúm sé umtalsvert til hækkunar lægstu launa. Þetta kemur fram í ályktun ráðsins, sem samþykkt var á fundi þess í gærkvöldi.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra sagði í Síðdegisútvarpi Rásar 2 fyrir helgi að verkalýðshreyfingin hljóti að sækja um meira en þau þrjú prósent sem atvinnurekendur hafi talað um í tengslum við gerð nýs kjarasamning almenns launafólks. Hún benti meðal annars á lækkun skatta og góða afkomu útflutningsgreinanna.

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar stéttarfélags segir að samninganefnd félagsins fagni þessum orðum ráðherrans.

„Já, það gerum við. Í ályktun samninganefndarinnar er lýst yfir ánægju með að kveðinn skuli nýr tónn í þeim samningum sem gengið hefur verið frá að undanförnu. Starfsgreinasambandið er að leggja lokahönd á kröfugerð aldildarfélaga sambandsins. Samninganefndinni þótti þess vegna nauðsynlegt að undirstrika sérstaklega orð félagsmálaráðherra,“ segir Halldóra Sigríður Sveinsdóttir.

„Sýnilegur vilji er til að bæta kaup og kjör almenns launafólks. Fundurinn hvetur atvinnurekendur til að leggjast á árarnar með launþegasamtökum og ríki að binda enda á þá dæmalausu láglaunastefnu sem rekin er.  Sú stefna hefur runnið sitt skeið á enda með undangengnum samningum við ýmsa hópa. Formaður Samtaka atvinnulífsins hefur gengið fram fyrir skjöldu og gert ásættanlega kjarasamninga við flugmenn Icelandair og telur fundurinn það til fyrirmyndar,“ segir í ályktun samninganefndar Bárunnar stéttarfélags.

IMG_3228