Samninganefnd samþykkir verkfallsboðun
Samninganefnd Bárunnar samþykkti samhljóða á fundi sínum að efna til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um boðun verkfalls.
Þar sem fyrri atkvæðagreiðsla var dregin til baka vegna dóms Félagsdóms um sambærilega atkvæðagreiðslu hjá tæknimönnum útvarpsins þá er nauðsynlegt að endurtaka hana. Greinilegt er að þessi afstaða Samtaka atvinnulífsins að hengja sig á tæknileg atriði og vefengja allar aðgerðir stéttarfélaganna í stað þess að setjast niður við samningaborðið hefur hleypt illu blóði í félagsmenn og var fólki þó nóg boðið áður.
Atkvæðagreiðsla mun hefjast kl. 8:00 13.apríl nk og standa fram til miðnættis 20.apríl.
Hún verður með sama hætti og hin fyrri nema talið verður sérstaklega frá hverju félagi fyrir sig í stað sameiginlegrar talningar sem fyrirhuguð var. Lykilorð verður sent til félagsmanna og munu þau berast strax eftir helgi.
Það er gríðarlega mikilvægt að fá góða þáttöku og því hvetjum við félagsmenn að kjósa um leið og þeir fá lykilorðin í hendur. Því betri þáttaka sem verður í kosningunni, því sýnilegri er samstaðan og því sterkari komum við til leiks, ef og þegar Samtök atvinnulífsins sjá sóma sinn í að axla ábyrgð sína og setjast niður við samningaborðið.