Samningurinn við Sveitarfélögin samþykktur í atkvæðagreiðslu
Starfsfólk sveitarfélaga í 13 aðildarfélögum SGS hafa samþykkt kjarasamninginn sem undirritaður var 1. júlí síðastliðinn í sameiginlegri rafrænni atkvæðagreiðslu. Já sögðu 78,84% en nei sögðu 21,16%. Alls voru 2.515 félagar á kjörskrá en 378 greiddu atkvæði (15% kjörsókn). Starfsgreinsambandið undirritaði kjarasamning í umboði eftirtalinna félaga: AFL – starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining – Iðja, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands og Verkalýðsfélag Vestfirðinga.
Þessi atkvæðagreiðsla er fyrsta rafræna atkvæðagreiðslan sem Starfsgreinasambandið stendur fyrir og tókst í öllum aðalatriðum vel. Vissulega er kjörsókn dræm en sumarfrí geta haft þar mikil áhrif líka. Ekki var annað að sjá en að fólk kunni vel að meta það að geta greitt atkvæði rafrænt.