Setningaræða forseta 43. þing ASÍ
Ágætu þingfulltrúar, ráðherra og góðir gestir.
Ég vil byrja á því að óska konum og raunar okkur öllum hjartanlega til hamingju með baráttudaginn, 24. október sem er orðinn jafn mikilvægur í baráttu kvenna fyrir jafnrétti og jafnstöðu á vinnumarkaði og 1. maí er fyrir okkur öll.
Á þessum baráttudegi stendur íslenskt samfélag ekki einungis frammi fyrir þeirri áskorun að jafna hlut kynjanna í samfélagi okkar heldur stendur Alþýðusamband Íslands og samfélagið allt einnig frammi fyrir miklum áskorunum nú þegar undirbúningur kjarasamninga stendur sem hæst og efnahagsuppsveiflan náð hámarki sínu.
Reynslan kennir okkur að við slíkar aðstæður getur orðið vandasamt að samræma væntingar félagsmanna okkar um kjarabætur við þær aðstæður sem fyrirtækin í landinu búa við.
Við lifum því góðir félagar á spennandi átakatímum.
Ég tók við sem forseti Alþýðusambandsins fyrir nákvæmlega 10 árum síðan þann 24. október 2008, nokkru eftir að Geir Haarde hafði beðið Guð að blessa Ísland, sama dag og stjórnvöld sóttu um neyðaraðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og eldarnir fóru að loga á Austurvelli.
Mánuðina, misserin og árin þar á eftir urðu félagsmenn okkar fyrir miklu tjóni sem aldrei verður metið til fulls og sem enginn fær skilið nema þeir sem lentu í því sjálfir.
En það voru ekki einungis heimili og efnahagur félaga okkar sem hrundi í október 2008 heldur hrundi að mörgu leiti íslenskt samfélag sem verið hafði í greipum frjálshyggjunnar um árabil.
Atvinnulífið stóð á brún hengiflugsins og þúsundir félagsmanna stóðu skyndilega ekki einasta frammi fyrir eigna tapi heldur einnig fordæmalausri kaupmáttarskerðingu, missi atvinnu og lífsviðurværis og í fullkominni óvissu um hvort þeir sjóðir og þær stofnanir vinnumarkaðarins og samfélagsins sem tryggja áttu velferð félagsmanna við áföll gætu valdið hlutverki sínu. Aldrei áður hafði atvinnuleysi vaxið eins hratt og þá og fall kaupmáttar var af stærðargráðu sem við höfðum ekki séð í langan tíma.
Það er alveg ljóst að við deildum þá og deilum að sumu leiti enn kæru félagar um það hvort Alþýðusambandið hafi risið undir hlutverki sínu og sitt kann hverjum að finnast um það. En við skulum samt hafa það í huga að ekkert samfélag í hinum vestræna heimi og engin verkalýðshreyfing hafði áður staðið frammi fyrir öðru eins.
Þetta var sá kaleikur sem að mér var réttur sem forseta ykkar á þessum örlaga tímum haustið 2008 og ég ásamt miðstjórn og forystumönnum aðildarfélaganna stóðum frammi fyrir fordæmalausri stöðu sem krafðist fumlausra og samstilltra viðbragða.
Mér finnst því rétt nú á 10 ára afmæli hrunsins, þegar ég stíg til hliðar, að horfa aðeins yfir þetta tímabil og að við veltum í leiðinni fyrir okkur með hvaða hætti við sem samtök og brjóstvörn íslenskrar alþýðu brugðumst við.
Valkostirnir voru ekki margir og þeir voru allir erfiðir. Ríkissjóður var ekki bara tómur, heldur var hallareksturinn af óþekktu umfangi og ljóst að geta hans til að axla miklar byrðar var lítil sem engin. En það var eitt og aðeins eitt sem kom aldrei til greina og það var að leggja árar í bát og láta hrekjast undan fárviðrinu.
Saman ákváðum við að stinga okkur í gegnum brimskaflinn, stinga okkur á kaf inn í það verkefni að tryggja framfærslu, atvinnu og afkomu okkar félagsmanna og leggja grunn að þeim ráðstöfunum í atvinnulífinu og í ríkisfjármálum sem tryggt gætu endurreisn þess og freista þess að ná okkar sanngjarna hlut til baka. Til þess að þetta mætti takast þurftu allir að leggjast á eitt.
Og þá góðir félagar, kom í ljós hinn raunverulegi styrkur Alþýðusambands Íslands og allra þeirra hundraða félagsmanna í stjórnum og ráðum aðildarfélaganna sem saman mynda Alþýðusambandið.
Ég vil leyfa mér að fullyrða að sá styrkur birtist ekki í því hverjir fóru fremstir í átökunum og mótmælunum á Austurvelli. Þar kom grasrótin saman, íslensk alþýða og þjóðin öll, sýndi styrk sinn og kallaði til pólitískrar ábyrgðar þá sem ábyrgð áttu að bera. Þar skilaði íslensk alþýða skömminni til stjórnmálanna og þeirra sjóræningja sem stýrðu íslenska fjármálakerfinu við strandhögg þeirra hér á landi og erlendis.
Alþýðusambandið og forysta þess hefur verið gagnrýnd fyrir að gera sig ekki gildandi á Austurvelli og ég get alveg viðurkennt hér að það kom svo sannarlega til álita á sínum tíma. Þegar málið var tekið upp við þá sem stóðu að mótmælunum á Austurvelli – Hörð Torfason og félaga – vorum við einfaldlega beðin um að halda okkur fjarri! Þetta var og átti að vera vettvangur grasrótarinnar en ekki skipulagðra samtaka, hvort sem það væru stjórnmálaflokkar eða verkalýðsfélög. Við sem skipuðum forystusveit ASÍ þá féllumst einfaldlega á þessa nálgun, því okkar beið annað hlutverk og engu minna.
Væntingarnar til okkar voru af allt öðrum toga og eins og ég sagði áðan sýndum við styrk Alþýðusambandsins og íslenskrar verkalýðshreyfingar með öðrum hætti.
Sá styrkur grundvallast á því að fá ef nokkur verkalýðshreyfing í heiminum getur státað af því að yfir 90% launamanna séu aðilar að stéttarfélögum og þar með kerfi sem tryggir öllu launafólki grundvallarréttindi skv. kjarasamningum. Þetta er afl sem tryggir okkur jafnstöðu á við atvinnurekendur og samtök þeirra og sterka stöðu í þríhliða viðræðum verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og stjórnvalda um aðgerðir og lausnir.
Það er þessi sterka staða og þetta afl sem tryggði og tryggir okkur áhrif á mótun samfélagsins til framtíðar og er stærsti lærdómurinn sem sem alþjóðasamfélagið og okkar norrænu, evrópsku og alþjóðlegu samtök hafa haldið á lofti eftir hrun í glímunni við stofnanir á borð við G7, G20, AGS, OECD, Alþjóðabankann og fleiri.
Við sem Alþýðusamband erum og eigum að vera stór og áhrifamikil samtök í íslensku samfélagi. Við höfum einungis eina hagsmuni og eitt pólitískt markmið og það er að tryggja velferð, menntun og öryggi alls vinnandi fólks og þeirra félaga okkar sem misst hafa vinnu, örkumlast eða hverfa af vinnumarkaði sökum aldurs.
Að því leiti erum við stjórnmálaafl en við erum ekki og eigum ekki að vera stjórnmálaflokkur. Innan okkar raða eru stuðningsmenn og andstæðingar allra stjórnmálaflokka en sem sameinast innan okkar raða sem samstæður hópur vegna þess að þeir vilja vinna að þeim grundvallarhagsmunum sem við eigum saman þvert á alla stjórnmálaflokka og stefnur.
Aflið sem við höfum, sækjum við ekki í kosningar á 4 ára fresti heldur í þá samstöðu sem verður til við gerð kjarasamninga og vitund atvinnurekenda og stjórnvalda um að þau vopn sem við búum yfir eru öflug, þurfi að grípa til þeirra.
En ágætu félagar.
Því hefur verið haldið fram að þetta afl hafi ekki verið notað árin eftir hrun. Ég er ekki sammála því mati, því með kjarasamningum og þríhliða samstarfi við stjórnvöld og atvinnurekendur náðum við að hrinda í framkvæmd mörgum samfélagsúrbótum sem erlendir kollegar okkar hafa öfundað okkar af.
Mig langar að nefna nokkur dæmi þó fjarri lagi sé um einhverja tæmandi talningu a ræða.
- Eftir hrun var bótatímabili í atvinnuleysi lengt úr 3 árum í 4 ár og framlög til menntunnar þeirra sem misstu vinnuna og virkra vinnumarkaðsúrræða aukin verulega frá því sem áður var. Þetta var fyrst og fremst okkar verk með samkomulagi við atvinnurekendur og öflugum stuðningi stjórnvalda.
- Hvergi í heiminum tókst betur til við að verja viðkvæmustu hluta heilbrigðis- og velferðarkerfisins í endurreisn ríkisfjármála, m.a. vegna þess að veigamiklir þættir tilfærslu- og afkomutryggingarkerfinu eru í kjarasamningum en ekki hjá ríkissjóði.
- Vorið 2008 höfðum við samið um stofnun VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs undir yfirskriftinni ,,við skiljum engan eftir‘‘ og okkur tókst að tryggja farsæla uppbyggingu kerfis raunhæfra úrræða fyrir þá sem lenda í veikindum og alvarlegum slysum í gegnum allt hrunið.
- Verulegar úrbætur náðust á lagalegri stöðu skuldugra heimila bæði hvað varðar óhóflegan innheimtukostnað lögmanna en sú lagabreyting fæddist á skrifstofum ASÍ en ekki síður með sérstökum lög um afskriftir óraunhæfra skulda í gegnum 110% leiðina og greiðsluaðlögun, mál sem ASÍ setti á dagsrá löngu fyrir hrun.
- Samkomulagi um endurreisn félagslega húsnæðiskerfisins með 30% stofnkostnaðarstyrkjum og stofnun Bjargs íbúðafélags þannig að aldrei aftur þurfi láglaunafólk að steypa sér í ofurskuldir til þess að njóta húsnæðisöryggis sem er hluti af grundvallarmannréttindum.
- Við lögðum grunn að auknum hagvexti og fjölgun starfa og gerðum kjarasamninga sem bæði tryggðu að félagsmenn okkar næðu kaupmætti sínum til baka, og meira til, ásamt því að lyfta þeim tekjulægstu verulega. Það hefur svo sannarlega gengið eftir eins og alkunna er meðan félagar okkar austan hafs og vestan eru langt frá því að ná sömu stöðu fyrir launafólk í sínum heimaríkjum og líta til okkar og þeirra úrræða sem við gripum til.
- Okkur hefur tekist á ná fram þeirri áratugagömlu kröfu Alþýðusambandsins að jafna ávinnslu lífeyrisréttinda á milli almenna- og opinbera markaðarins, aðgerð sem mun skila yngri félagsmönnum okkar sérstaklega, mun betri lífeyriskjörum en þeim sem við flest búum við.
- Við tvöfölduðum framlög atvinnurekenda í starfsmenntasjóði almenns launafólks og jukum framboð af nýjum námstækifærum fyrir þá sem litla menntun hafa.
- Við höfum náð samkomulagi við atvinnurekendur og stjórnvöld um verulegar breytingar á réttarstöðu erlendra starfsmanna með auknu aðhaldi að starfsmannaleigum og fyrirtækjum sem fá til sín útsenda starfsmenn. Eins og skýrt hefur komið fram á síðustu vikum er það verkalýðshreyfingin undir merkinu „Einn réttur – ekkert svindl“ sem hefur staðið vaktina í þessum efnum með öflugu og vel skipulögðu vinnustaðaeftirliti, eftirliti sem stjórnvöld höfðu mikið til vanrækt. Það hefur leitt til þess að stofnanir ríkisins og stjórnvöld eru að vakna til verka og hefði þó mátt vera fyrr. Enn eigum við þó langt í land í þessum efnum en vinnum hörðum höndum að úrbótum í samstarfi við atvinnurekendur og stjórnvöld.
Ég gæti haldið svona lengi áfram að telja það upp sem okkur tókst að ná fram á árunum eftir hrun en vil segja að lokum þetta, allan þann árangur er fyrst og síðast að þakka samstöðu ykkar og stefnufestu sem byggir og hefur alltaf byggt á því að við beitum afli okkar í þágu þeirra þeirra félaga okkar sem veikast standa, trú því sem einkennir fánann okkar þar sem óslitin keðja hverfist um nafnið okkar, keðja sem aldrei verður sterkari en veikasti hlekkur hennar.
Við þetta verður þó ekki skilist án þess að fjalla aðeins um það kallað hefur verið SALEK en umræða um þann þátt í starfi okkar hefur bæði verið afbökuð og rangfærð. SALEK verkefnið sem við komumst vel á veg með, fólst fyrst og fremst í því að tryggja félagsmönnum okkar öruggan lífskjarabata með skilyrðislausu samhengi milli efnahagsstefnu stjórnvalda á hverjum tíma og velferðarkerfisins, sem til framtíðar myndi tryggja ekki bara efnahagslegan stöðugleika heldur fyrst og síðast félagslegan stöðugleika. Þannig yrði aukin velferð félagsmanna okkar í fyrirrúmi í stað þess að almennt launafólk væri annað af tvennu fórnarlömb efnahagslegra afglapa stjórnvalda líkt og gerðist við hrunið eða fórnarlömb þeirra sem trúa brauðmolakenningum frjálshyggjunnar og boða lækkun skatta og einkavæðingu samfélagsþjónustunnar.
Þessu verkefni lukum við ekki en öll grunnvinna og stefnumótun liggur fyrir og ég trúi því að sá dagur muni koma að þráðurinn verði að nýju tekinn upp.
En í tengslum við þetta verkefni okkar og í umræðunni um það kemur það fram sem ég hef kostið kýs að kalla rót reiðinnar.
Staðan er einfaldlega sú, að þrátt fyrir að verkalýðshreyfingunni hafi með samstöðu sinni tekist að hækka lægstu laun langt umfram almenna launaþróun, hefur það ekki leitt til þeirra bættu lífskjara þessara hópa sem að var stefnt.
Ástæðan er sú að stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum og aðgerðarleysi á undaförnum árum hirt lungann af þeim ávinningi sem kjarasamningar hafa tryggt þeim tekjulægstu.
Við erum að tala um skerðingu skattleysismarka, lækkun barnabóta, lækkun vaxta- og húsnæðisbóta á sama tíma og stjórnvöld hafa vanrækt hlutverk sitt á húsnæðismarkaði og fasteignaverð og húsaleiga hækkar upp úr öllu valdi. Fólk veigrar sér við að leita læknis vegna hárrar gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Skerðingar á greiðslum almannatrygginga með miklum tekjutengingum gagnvart greiðslum lífeyrissjóðanna eru enn eitt dæmið um hvernig ríkið hefur höggvið þar sem hlífa skyldi.
Til viðbótar kemur síðan skefjalaus sjálftaka ofurlaunaaðalsins á svimandi launahækkunum sem magnar hina réttlátu reiði enn frekar.
Stjórnmálamenn bera á þessu fulla ábyrgð. Krafan um að þeir og dekurbörnin þeirra deili kjörum með þjóðinni er krafa um réttlæti og jöfnuð.
Því miður er það svo, að í áætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára stendur ekki til að rétta hag þeirra lægst launuðu þegar kemur að velferðar- og skattamálum.
Til þess að bíta höfuðið af skömminni lét ríkisstjórnin síðan ólöglegar niðurstöður Kjararáðs standa og heyktist við að taka til baka ofurhækkanir stjórnmálamanna og æðstu embættismanna.
Tillaga ASÍ var samstaða allra um nýjan þjóðarsáttmála, þar sem auknum tekjum ríkis og sveitarfélaga af hagvexti yrði varið til eflingar velferðar- og félagsmála. Því miður var ríkisstjórnin, undir forsæti Vinstri Grænna, ekki tilbúin til þess þessa verks og því var miðstjórn ASÍ nauðugur sá kostur að hafna þátttöku í þjóðhagsráði sem átti að vera samráðsvettvangur aðila til þess að tryggja hér efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Í allri þessari umræðu hefur það alltaf legið ljóst fyrir, að ASÍ myndi aldrei sætta sig við aukin ójöfnuð og misrétti.
Þetta kæru félagar er rót þeirrar reiði sem birtist í samfélaginu og nær inn í okkar raðir þrátt fyrir þann mikla árangur sem Alþýðusambandið hefur náð á undanförnum árum. Árangri sem ég geri hér að umræðuefni, ekki til þess að hreykja mér af þó hann hafi náðst á minni vakt sem forystumaður ykkar því þennan heiður eigið þið öll sem hér eruð.
Ég geri þetta þvert á móti kæru félagar að umtalsefni til þess koma því skýrt til skila, að samstaðan er það afl sem skilar okkur árangri og gerð kjarasamninga er sú leið og sú aðferð sem við höfum til þess að móta samfélag okkar og berjast gegn ójöfnuði. En til þess að ná slíkum árangri verðum við bæði að vera praktísk og skynsöm nestuð sterkri hugsjón um jöfnuð og jöfn tækifæri, en jafnframt axla mikla ábyrgð á því að vera þátttakandi í mótun hugmynda og tillagna.
En eitt er víst og það er, að við gerðum örugglega ekki allt rétt og vafalaust hefðum við getað gert betur í sumu, en það breytir ekki því einlæga mati mínu að við sem heild gerðum bæði okkar besta og náðum meiri og betri árangri en okkur er ef til vill ennþá orðið ljóst. Af þeim árangri eigum við að vera stolt líkt og við getum verið stolt af þeim sigrum sem við höfum unnið í 100 ára sögu sambandsins.
Er þá skemmst að minnast réttinda á vinnumarkaði og aðbúnaður á vinnustöðum sem er óvíða betri en hér á landi. Veikindaréttur, lífeyrismál, orlofsréttur, atvinnuleysistryggingar, sjúkrasjóðir sem veita allskyns styrki auk sjúkradagpeninga og svo mætti áfram telja. Og listinn er miklu lengri góðir félagar og við getum verið stolt af þeim árangri sem við höfum náð.
En veltum því aðeins fyrir okkur hver sé sá lærdómur sem við getum af þessu dregið en hann er bæði einfaldur og flókinn.
Einfaldur vegna þess að verkin tala og segja okkur að þegar okkur auðnast að mynda sterka samstöðu stoppar okkur ekkert en hann er líka flókinn vegna þess að hann segir einnig að það er órofasamband milli velferðar launafólks, kjarasamninga við atvinnurekendur og þríhliðasamstarfs við öll stjórnvöld á öllum tímum.
Og höfum þá í huga að mesti árangurinn og stærstu sigrarnir hafa ekki einungis unnist með verkföllum heldur með átakalausum kjarasamningum, sem lokið er á breiðum grundvelli í kjölfar lýðræðislegs og einlægs samráðs og samstarfs við undirbúning og gerð kjarasamninga.
Þar hefur alltaf verið haft eitt sjónarmið að leiðarljósi og það er að sá hópur félagsmanna sem lægst hefur launin fái hlutfallslega mestar hækkanir. Og krafa okkar á stjórnvöld er og hefur alltaf verið sú að þau tryggi með skipulagi og fjármögnun velferðarinnar að sá hópur sé verndaður gegn niðurskurði og tekjutengingum.
Því miður er það svo að stjórnvöld hafa ítrekað gengið bak orða sinna í því efni og við þurfum sem hreyfing að íhuga alvarlega hvernig tryggja megi að efndir fylgi orðum og að loforðin séu bæði fjármögnuð og skýr en það er annað mál.
Að lokum góðir félagar.
Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá stendur Alþýðusamband Íslands og íslenskt samfélag frammi fyrir miklum áskorunum nú þegar undirbúningur kjarasamninga stendur sem hæst og toppi hagsveiflunnar hefur verið náð.
Í þeirri baráttu sem framundan er megum við ekki missa sjónar af þeim grundvallaratriðum sem ég hef fjallað um hér að framan og reynslan hefur kennt okkur, hvort sem mönnum líkar það betur eða ver, að sígandi lukka og aukinn kaupmáttur lægstu launa á grundvelli kjarasamninga sem gerðir eru í samhengi við stöðu atvinnuveganna á hverjum tíma hafa fært okkur mestan árangur.
Af þeirri baráttuaðferð í kjölfar efnahagshrunsins 2008 njótum við í dag. En staðan er viðkvæm og ýmsar vísbendingar á lofti um að við stefnum í nýja efnahagslægð. Við þær aðstæður er það skylda okkar að koma einhuga og fumlaust að verki, líkt og við gerðum fyrir 10 árum.
En allt er breytingum háð og margt bendir til þess að áherslur og baráttuaðferðir stærstu aðildarsamtaka ASÍ verði með nokkuð öðrum hætti en verið hefur um lagt skeið. Það er ekki mitt að dæma um hvort það muni verða félagsmönnum Alþýðusambandsins og fjölskyldum þeirra til heilla í framtíðinni, nú þegar ég hef ákveðið að stíga til hliðar sem forseti ASÍ, en svo notuð séu fleyg orð Sókratesar úr málsvörn sinni í síðustu samræðu hans við félaga sína:
„Nú skiljast leiðir en hvor fer betri för er öllum hulið nema guðinum.“
Kæru félagar, takk fyrir stuðning ykkar á síðustu 10 árum í þessu vandasama verkefni og ég færi ykkur einlægar þakkir fyrir að hafa leyft mér að þjóna ykkur og sinna verkefnum sem hafa verið mér hjartans mál.
Nú skilja leiðir við lok þessa þings og ég fer sáttur frá borði og treysti ykkur, grasrót þessarar hreyfingar sem hér komið saman sem fulltrúar yfir 120 þúsund félagsmanna, til þess að halda stolt merki Alþýðusambands Íslands og íslenskrar verkalýðshreyfingar á lofti, ég segi 43. þing Alþýðusambands Íslands sett.