Við vinnum fyrir þig

Translate to

SGS mótmælir aðgerðum LÍÚ harðlega

Starfsgreinasamband Íslands mótmælir harðlega aðgerðum LÍÚ um að hvetja sína félagsmenn til þess að halda fiskiskipaflotanum í landi um óákveðinn tíma til að knýja á um viðræður við stjórnvöld um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjald. Í huga SGS er um ólögmætar aðgerðir að ræða þar sem þær fela í sér brot á 17.gr. laga nr. 80/1983 um stéttarfélög og vinnudeilur.  

Það er mikil hættta á því að þessar aðgerðir LÍÚ muni koma illa við landverkafólk, en tilbúinn hráefnisskortur mun leiða til vinnslustöðvunar. Nú þegar eru þessar aðgerðir farnar að hafa áhrif á vinnslu í nokkrum fyrirtækjum og er óljóst hvort fiskvinnslufólk muni verða fyrir tekjuskerðingu. LÍÚ hefur upplýst að starfsfólk verði tryggt laun samkvæmt kjarasamningum á meðan á aðgerðum stendur, en það er rétt að minna á að tekjur fiskvinnslufólks eru samsettar af grunnlaunum annars vegar og bónusgreiðslum hinsvegar. Eins og staðan er núna er aldeilis óvísst hvort fiskvinnslufyrirtæki muni greiða öll laun á meðan á þessum aðgerðum stendur. 

Starfsgreinasambandið mun fylgjast grant með áhrifum þessa aðgerða og meta hvort þær muni þýða tekjutap fyrir okkar félagsmenn. SGS í samvinnu við ASÍ áskilur sér rétt til málshöfðunar til heimtu skaðabóta og sekta ef þessar aðgerðir munu hafa áhrif á tekjur okkar félagsmanna.

Í umsögn SGS um frumvörp til laga um fiskveiðistjórnun og veiðigjald var líst yfir ákveðnum áhyggjum um að fyrirhugaðar breytingar stjórnvalda gætu haft neikvæð áhrif á kjör og starfsöryggi landverkfólks. Á hinn bóginn telur Starfsgreinasambandið það með öllu óásættanlegt að LÍÚ ráðist í einhliða pólitískar aðgerðir sem muni bitna á okkar umbjóðendum. 

Tekið af heimasíðu SGS