Við vinnum fyrir þig

Translate to

Söguferð til Víkur í Mýrdal 12. mars 2012.

Báran stéttarfélag og Verslunarmannafélag Suðurlands standa fyrir söguferð til Víkur í Mýrdal laugardaginn 24. mars n.k. Ætlunin er að kynna sér sögu verslunar og atvinnu í Vík í Mýrdal en verslun hefur verið þar frá árinu 1883. Einnig voru stundaðir sjóróðrar við mjög erfiðar aðstæður. Eitt af frægustu og farsælustu skipum í íslenskri siglingarsögu er vélbáturinn Skaftfellingur. Hann var gerður út frá Vestmannaeyjum og þjónustaði Skaftfellinga um árabil. Í dag er báturinn geymdur í skemmu í þorpinu og verið er að vinna að endurbyggingu hans. Markmiðið er að skoða skipið, heimsækja Brydebúð, rölta um þorpið og skoða sögufræg hús. Leiðsögn um Vík, heimsókn í Brydebúð og skemmuna er í boði heimamanna.

Félagsmenn sjá um að koma sér á staðinn en þeir sem ekki hafa aðgang að bíl og vantar far geta haft samband við Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi í síma 480-5000. Fólk er beðið að skrá sig því Verkalýðsfélag Suðurlands ætlar að bjóða upp á léttan málsverð og því nauðsynlegt að vita fjöldann sem verður í mat. Síðasti skráningardagur er miðvikudagurinn 21. mars nk.

Fyrirhuguð dagskrá

10.15 Safnast verður saman í bíla á bílaplani Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna, Austurvegi 56, Selfossi. Þeir sem skilja bíla sína eftir leggi við austurgafl hússins.

10.30 Brottför frá Selfossi.

Hægt er að leggja bifreiðum á planinu við Brydebúð sem er staðsett í gamla hluta Víkurþorps (vestast í þorpinu).

12.30 Formleg dagskrá hefst við Brydebúð.

SKRÁNING:

Skráning fer fram í síma 480 5000 eða á thor@midja.is