Við vinnum fyrir þig

Translate to

Spurt og svarað um SALEK

Hvað er SALEK?

Svar: SALEK er skammstöfun fyrir samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. SALEK er afrakstur vinnu sem hófst 2013 með úttekt BSRB, KÍ, BHM, ASÍ, SA og samninganefnda ríkis, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga á umhverfi kjarasamninga á hinum Norðurlöndunum, þar sem áhersla var lögð á heildarendurskoðun samningalíkansins.

Hvers vegna SALEK?

Svar: Með samstarfinu vilja heildarsamtökin stuðla að því að bæta þekkingu og vinnubrögð við undirbúning og gerð kjarasamninga með Norðurlöndin sem fyrirmynd. Markmiðið er að auka kaupmátt á grundvelli lágrar verðbólgu, lágra vaxta og stöðugs gengis. Á hinum Norðurlöndunum hefur tekist að auka kaupmátt tvisvar sinnum meira á ári á síðustu 15 árin en hér á landi. Auk þess er samkomulaginu ætlað að stuðla að friði á vinnumarkaði og auknum stöðugleika.

Er samningsrétturinn tekinn af einstaka stéttarfélögum með SALEK samkomulaginu?

Svar: Nei, það er ekkert í þessu samkomulagi sem hróflar við ákvæðum vinnulöggjafarinnar um samningsrétt einstakra stéttarfélaga.

Er þetta kjarasamningur?

Svar: Nei, þetta er rammasamkomulag sem hvert stéttarfélag/landssamband fyrir sig getur unnið út frá. Allir aðilar samkomulagsins fá þó fyrirheit um að njóta sambærilegra launahækkana til ársloka 2018. Þá verður gert samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði.

Kemur þetta samkomulag í staðinn fyrir kjarasamning?

Svar: Nei. Flest félög innan ASÍ sömdu vorið 2015 til þriggja ára um minni launahækkanir en felst í SALEK-samkomulaginu. Á grundvelli þessa rammasamkomulags þarf samninganefnd ASÍ að gera nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins til að tryggja að 85.000 félagsmenn okkar á almennum vinnumarkaði fái sambærilegar launahækkanir og um hefur verið samið á opinbera markaðinum. Sá samningur verður síðan lagður í atkvæðagreiðslu félagsmanna.

Þýðir þetta samkomulag að allar launahækkanir (launaskrið) séu bannaðar?

Svar: Nei, það er ekki hægt að banna launaskrið. Breytingin er sú að opinberir starfsmenn fá nú að njóta launaskriðs sem verður á almennum vinnumarkaði, að frádregnu launaskriði á opinbera vinnumarkaðinum.

Gerir samkomulagið það að verkum að launahækkanir mínar verða takmarkaðar?

Svar: Gagnvart félagsmönnum ASÍ hjá hinu opinbera tryggir samkomulagið að þeir fái sambærilegar launahækkanir og kveðið var á um í gerðardómi í sumar. Gagnvart félagsmönnum ASÍ á almennum vinnumarkaði tryggir samkomulagið að SA skuldbindur sig að tryggja þeim einnig sambærilegar launahækkanir.

Eru stéttafélög óþörf með svona samkomulagi?

Svar: Nei, þvert á móti sýnir þetta styrkleika okkar fyrirkomulags. Við getum verið stórt og sterkt afl í samskiptum við hið opinbera og samtök atvinnurekenda en samhliða búið einstaka stéttarfélögum betra svigrúm til þess að sinna hagsmunum sinna félagsmanna.

Er það forysta hvers tíma sem getur gert breytingar á samkomulaginu, allt eftir því hvernig vindar blása?

Svar: Forysta verkalýðshreyfingarinnar hefur að sjálfsögðu ekkert sjálfdæmi um það með hvaða hætti samningalíkan er byggt upp. Þar hafa stéttarfélögin og félagsmenn þeirra síðasta orðið. Með umræddu rammasamkomulagi er ekki búið að ákveða eitthvert eitt samningalíkan, heldur er hér verið að hefja umræðu sem við teljum að muni taka 2-3 ár að ljúka.

Verður það gert í nánu samráði og samstarfi við aðildarfélög ASÍ og félagsmenn þeirra?  Ef við náum á endanum saman um innviði nýs samningalíkans verður það lagt í atkvæðagreiðslu allra þeirra tæplega 100.000 félagsmanna sem eru innan raða ASÍ.

Hvað gerist núna þegar búið er að gera SALEK-samkomulagið?

Svar: Fyrsta verkefnið er að ljúka kjarasamningum við ríki og sveitarfélög vegna félagsmanna ASÍ sem starfa á þeim hluta vinnumarkaðarins. Næst er að tryggja félagsmönnum ASÍ á almennum vinnumarkaði sambærilegar launahækkanir á næstu árum og hér um ræðir. Síðan verðum við að hefja umræðu um þróun og mótun þess samningalíkans sem vonandi tryggir okkar félagsmönnum kaupmáttaraukningu á grundvelli lágrar verðbólgu, lágra vaxta og stöðugs gengis. Samhliða verðum við að ræða við stjórnvöld um það með hvaða hætti þau þurfa að beita agaðri hagstjórn til að koma í veg fyrir kollsteypur vegna ofþenslu.

Ef þú hefur frekari spurningar vegna SALEK-samkomulagsins sendu þær þá á asi@asi.is

Frétt tekin af heimasíðu ASÍ