Starfsgreinasamband Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við sjómenn
Þær vinnudeilur sem sjómenn og útgerðarmenn standa nú í hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir landverkafólk. Fiskvinnslufyrirtæki hafa nýtt sér ákvæði í landslögum sem gerir þeim kleift að senda fiskvinnslufólk á atvinnuleysisbætur vegna „ófyrirséðra áfalla“ í stað þess að njóta kauptryggingar vegna hráefnisskorts eins og hingað til hefur tíðkast.
Með þessu spara fyrirtæki sér launakostnað í verkfallinu en að sama skapi geta fyrirtæki ekki vænst þess að fólk snúi aftur til vinnu eftir að deilan leysist. Með því að fara þessa leið eru fiskvinnslufyrirtæki að sýna starfsfólki sínu lítilsvirðingu og rjúfa þann gagnkvæma skilning sem felst í ráðningarsambandi. Þessar aðgerðir margra fiskvinnslufyrirtækja koma misjafnlega niður á afkomu fjölda einstaklinga þar sem atvinnuleysisbætur eru í mörgum tilvikum lægri en kauptrygging. Þá er ótalinn nokkur fjöldi fólks sem á alla jafna ekki rétt á atvinnuleysisbótum, fólk yngra en 18 ára, fólk nýflutt til landsins og fólk sem hefur áður fullnýtt bótarétt sinn. Starfsgreinasambandið mun freista þess að sækja réttindi þessa fólks enda um grófa mismunun að ræða gagnvart þessum hópi sem er sviptur uppsagnarfresti og afkomu í einni sviphendingu.
Það er skýr krafa Starfsgreinasambandsins að fiskvinnslufyrirtæki sýni starfsfólki sínu virðingu og traust og geri allt sem í þeirra valdi stendur til að viðhalda ráðningasambandi og tryggja framfærslu starfsfólks. Það ber líka að hafa í huga að mörg fiskvinnslufyrirtæki sem bera nú við ákvæði um „ófyrirséð áföll“ er einnig útgerðarfyrirtæki og sitja því við samningaborðið með sjómönnum.