Við vinnum fyrir þig

Translate to

Stutt frétt af kjaraviðræðum

Kjaraviðræður þokast enn áfram smátt og smátt. Innan Starfsgreinasambandsins og annarra aðildarsambanda ASÍ er nú stefnt að þriggja ára samningi sem byggir m.a. á úrbótum í efnahagsmálum, atvinnumálum og félagsmálum. 
Sá þáttur snýr að ríkisvaldinu og gæti orðið snúinn viðfangs, einkum umræðan um orkuöflun og virkjanir í tengslum við atvinnuuppbygginguna. Náist ekki fljótlega viðunandi samkomulag við ríkið um haldbæra stefnumörkun í atvinnumálum er vart hægt að tala um annað en kjarasamning til skemmri tíma.

Flest sérmál í kröfugerð Starfsgreinasambandsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins hafa verið kláruð eða eru í lokafarvegi. Viðræða um launaliði er þó öll eftir en gera má ráð fyrir því að umræður um launabreytingar hefjist af alvöru seinnihluta næstu viku, ef að líkum lætur.

Þá standa einnig yfir kjaraviðræður við Samninganefnd ríkisins og sveitarfélögin vegna þeirra starfsmanna sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum og eru félagar í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins. Í þessum viðræðum er unnið að sérmálum en launaliðir eru enn í biðstöðu.

Tekið af heimasíðu SGS