Við vinnum fyrir þig

Translate to

Súkkulaði hækkar, nema á vörum frá Freyju

Verð á súkkulaði hækkar víða miðað við janúar, en misjafnlega eftir framleiðendum og verslunum. Þetta kemur fram í samanburði Verðlagseftirlits ASÍ á sælgætis- og súkkulaðiverði í síðustu viku miðað við 22. janúar. Verð á súkkulaði frá Nóa Síríus hækkar mest, en verð á vörum frá Freyju hækkar minnst og lækkar í einhverjum tilfellum. 

Verð á öðru sælgæti frá Nóa Síríus og Góu-Lindu tekur minni breytingum en súkkulaðið og stendur í einhverjum verslunum í stað eða lækkar.

Verð hækkaði minnst, og í mörgum flokkum ekki, í þremur verslunum: Heimkaup, Extra og 10-11. 

Súkkulaðiplötur vógu þyngst í hækkunum Nóa Síríus. Þær hækkuðu margar um 15-25% í Bónus, til dæmis 46gr lakkrísrjómasúkkulaði (25%) og súkkulaðiplata með hnetum og rúsínum (19%). Í Krónunni hækkuðu þrjár rjómasúkkulaðiplötur Nóa Síríus (hrein, hnetu&rúsínu og karamellu&salt) um 19%. Lindu mjólkursúkkulaðiplata hækkaði um 12% í Krónunni og Lindu suðusúkkulaði um 10%. Hins vegar stóð verð á Freyju mjólkursúkkulaði með bombum í stað í Bónus. 

Engin dæmi fundust um verðhækkanir á Omnom súkkulaði, en 28 verð voru skoðuð í sex verslunum. Verð á Ritter Sport súkkulaðiplötum (mjólkursúkkulaði, marsipan og saltmöndlu) hefur verið 250 krónur í Krónunni og 249 krónur í Bónus frá ágústlokum. 

Verð á vörum frá Freyju stóð í stað eða hækkaði að meðaltali um minna en 0,25% í Bónus, Krónunni, Fjarðarkaupum, Heimkaupum, Hagkaup, Extra og 10-11. Það lækkaði í Nettó, Kjörbúðinni, Iceland og Krambúðinni. 

Sjá frétt á heimasíðu ASÍ með nánari upplýsingum