Við vinnum fyrir þig

Translate to

Svör við nokkrum spurningum varðandi félagsaðild að stéttarfélagi

Í vinnustaðaheimsóknum Bárunnar, stéttarfélags á síðustu misserum hefur verið mjög áberandi í umræðunni stéttarfélagsaðild starfsmanna fyrirtækja. Viðmælendur virtust almennt ekki
meðvitaðir um hvaða meginreglur gilda varðandi stéttarfélagsaðild. Ýmsar spurningar fylgdu í kjölfarið og ætlum við að reyna að svara þeim hér.

 

„Þarf ég að greiða í stéttarfélag?“

Samkvæmt lögum frá 1980 nr. 55 er atvinnurekendum gert skylt að halda eftir af launum starfsmanna iðgjaldi til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina. Samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og ákvæðum l. 55/1980 er launafólki frjálst að standa utan stéttarfélaga þótt því beri aftur á móti skylda til þess að taka þátt í fjármögnun kjarnahlutverks stéttarfélaganna sem er að gera lágmarks kjarasamninga sem ná til allra óháð formlegri félagsaðild.

 

„Ef ég skipti um félag missi ég þá öll réttindi?“

 Ef iðgjald er greitt til aðildarfélaga innan ASÍ flytur viðkomandi réttindi á milli stéttarfélaga. Báran fylgir sínum félagsmönnum eftir í 6 mánuði eftir að hætt er að greiða á meðan félgasmaður ávinnur sér rétt í nýju félagi.

 

„Er ekki sama í hvaða stéttarfélagi ég greiði?“

Stéttarfélögin hafa gert samkomulag um félagssvæðin. Í lögum hvers félags eru félagssvæðin tilgreind.  Báran, stéttarfélag er með félagssvæði milli Þjórsár og Ölfusár utan Ölfuss og Hveragerðis. Þeir sem starfa á þessum ákveðnu félagssvæðum greiða til þess félags sem félagssvæðið tilheyrir.

 

„Get ég valið um stéttarfélag á sama félagssvæði?“

 Ef tvö félög eða fleiri eru aðilar að sama kjarasamnigi í sömu starfsgrein á sama félagssvæði er hægt að velja félag.

 

„Hvað græði ég á því að greiða í stéttarfélag?“

Flest félög ganga eins langt og hægt er varðandi réttindi félagsmönnum til handa. Félögin eru með sjúkradagpeninga, sjúkrastyrki, starfsmenntasjóði, orlofshús, og almenna lögfræðiþjónustu fyrir félagsmenn. Einnig starfar Virk starfsendurhæfingarsjóður á vegum stéttarfélaganna.

 

„Hvað gerir Virk fyrir mig?“

Ef starfsgeta þín er skert vegna heilsubrests getur þú leitað aðstoðar hjá ráðgjafa sjúkrasjóðs stéttarfélagsins þíns. Ráðgjafinn aðstoðar þig við að efla færni þína og vinnugetu. Þjónustan miðar að því að efla styrkleika þína og draga úr áhrifum hindrana á vinnugetu og þátttöku á vinnumarkaði.

 

„Getur atvinnurekandinn ákveðið í hvaða félag ég greiði?“

Atvinnurekanda ber að fara eftir þeim reglum sem gilda á vinnumarkaði og getur ekki ákveðið fyrir hönd starfsmanna fyrirtækisins til hvaða félags þeir eiga að greiða.

 

„Eru sömu laun í öllum stéttarfélögum?“

Í öllum kjarasamningum er kveðið á um lágmarkslaun sem þýðir að ekki megi greiða lægra en lágmarkstaxta. Engin kjarasamningur eða stéttarfélag hamlar því að ekki megi greiða meira. Það er öllum frjálst að greiða góð laun óháð félagsaðild. Öll félög hvetja til bættra kjara. Lágmarkstaxti er ekkert lögmál.

 

Vonandi svarar þetta einhverjum spurningum. Ýmsar upplýsingar eru á heimasíðu félagsins varðandi kaup og kjör. Viljum við hvetja félagsmenn til þessa að fylgjast með heimasíðunni og facebook síðunni.

Slóðin er www.baran.is

Skrifstofan að Austurvegi 56, er opin  mánudaga til fimmtudaga frá 8:00-16:00 og frá 08:00-15:00 á föstudögum.