ÞING SGS LÝSIR YFIR STUÐNINGI VIÐ BARÁTTU STARFSFÓLKSINS Í RIO TINTO ÍSLANDI
Þing Starfsgreinasambands Íslands haldið á Hótel Natura dagana 14. og 15. október 2015 lýsir fullum stuðningi við aðgerðir starfsfólks RIO Tinto í Straumsvík. Barátta þeirra er birtingamynd stærri baráttu gegn verktöku og starfsmannaleigum. Það er grundvallarkrafa verkalýðshreyfingarinnar að launafólk sé með kjarasamninga sem standast ákvæði á íslenskum vinnumarkaði og að þeir séu virtir. Tilraunir RIO Tinto til að auka verktöku á alþjóðavísu sem og í Straumsvík er ekkert annað en aðför að samningsbundnum kjörum starfsfólks. Atvinnurekendur skulu ekki komast upp með það að reka fleyg á milli starfsmanna sem annars vegar eru ráðnir sem launamenn og hins vegar verktakar. Krafa fyrirtækisins um aukna verktakastarfsemi er afturhvarf til þeirra tíma þegar atvinnurekendur gátu valið frá degi til dags hverjir fengju vinnu og á hvaða kjörum. Það verður ekki liðið! Það er vaxandi tilhneyging atvinnurekenda að fara þessar leiðir til að svipta launafólk áunnum réttindum og mun verkalýðshreyfingin berjast hart gegn öllum slíkum tilraunum.