Við vinnum fyrir þig

Translate to

Þingmenn – standið við stóru orðin

Báran, stéttafélag hefur sen frá sér eftirfarandi ályktun:

Stjórn Bárunnar, stéttafélags mótmælir harðlega þeim niðurskurði á atvinnuskapandi verkefnum á Suðurlandi sem fram koma í framlögðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Ljóst er að á sama tíma og atvinnulíf á Suðurlandi á undir högg að sækja þá kemur þessi niðurskurður sér sérstaklega illa fyrir fyrirtæki, stofnanir og launafólk á svæðinu.

Skornar eru niður milli 400 og 500 milljónir í hin ýmsu verkefni sem til atvinnumála teljast og ættu að öllu eðlilegu að stuðla að atvinnuaukningu og styrkingu atvinnulífs á Suðurlandi.

Stórn Bárunnar vekur athygli á að meðal núverandi ráðherra eru þingmenn sem höfðu uppi stór orð um niðurskurð og dugleysi fyrri ríksstjórnar í atvinnumálum, ekki síst í aðdraganda síðustu kosninga. Stjórn Bárunnar krefst þess að þessir sömu fulltrúar fólksins og harðast gagnrýndu aðra fyrir kosningar noti völd sín og áhrif til að standa við orð sín og afstýra þeirri ógæfu sem við Sunnlendingum blasir. Athygli ráðamanna er líka vakin á að Sunnlendingar hafa ekki sömu atvinntækifæri og flestir aðrir landshlutar hafa í þeim greinum sem best standa nú um mundir. Því mun þessi niðurskurður bitna harðar á þeim en öðrum. Slæmt er að geta ekki treyst orðum ráðamanna sem kveikt hafa réttmætar væntingar um framgang löngu tímabærra verkefna.

Stjórn Bárunnar hvetur þingmenn kjördæmisins að taka höndum saman og berjast opinskátt fyrir því að þessi niðurskurður nái ekki fram að ganga, miklu fremur að bætt verði fjármagni í þau verkefni sem sannanlega munu verða til að auka atvinnu og létta róður launamanna. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Þessi ályktun hefur verið send í flesta fjölmiðla og á þingmenn kjördæmisins.