Við vinnum fyrir þig

Translate to

Til hamingju með daginn

Við förum stolt inn í daginn þegar við horfum á þau réttindamál sem komin eru til vegna baráttu launafólks í gegnum tíðina. Þetta er lifandi barátta þar sem púlsinn þarf að vera hverju sinni á hvar á helst að bera niður. Húsnæðismál, vextir verðtrygging, réttlát umskipti og svo má lengi telja. 

​Á framhaldsþingi ASÍ sem lauk núna fyrir helgi var verið að skila af sér málefnavinnu þar sem þingfulltrúar af öllu landinu tóku þátt í. Þetta var góð vinna og lætur verkalýðshreyfinginn sig flest varða þegar kemur að kjörum launafólks. Niðurstaða þessarar vinnu er svo nýrrar forystu ASÍ að fylgja eftir því sem grasrótin leggur til og er samþykkt á  þinginu sem stefna Alþýðusambandsins í þeim mikilvægu málum sem við vinnum að. 

Síðastliðið haust varð niðurstaða að fresta þingi ASÍ vegna þess að fjórir formenn ásamt einhverjum af fulltrúum þeirra félaga gengu út af þinginu. Sólveig Anna formaður Eflingar, Hörður Guðbrandsson formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, Ragnar Ingólfsson formaður VR og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akranes. Tekin var sú ákvörðun þá að fresta þingi og reyna að ná sáttum. Einnig drógu þau til baka framboð sín til forseta og varaforseta á þinginu. Nú liggur fyrir kosning nýrrar forystu ASÍ og er nokkur breyting miðað við fyrri uppstillingu. 

 Þáttur kvenna er nokkuð rýr eftir kosningu í miðstjórn af 15 fulltrúum eru fjórar konur. Mikið er rætt um að ná sáttum innan hreyfingarinnar og er það vel og nauðsynlegt. Í hverju felst sú sátt, alltaf að sætta sömu persónur og leikendur. Felast sættir í því að skerða hlut kvenna til forystu.  Þingið sá ástæðu til þess að álykta og hvetja til þátttöku kvenna til trúnaðarstarfa en ekki að kjósa konur til trúnaðarstarfa. Þetta er afturför til fortíðar og afar undarlegt á tímum jafnréttis?  Brýnt er að rýna í stöðu kvenna og velta fyrir sér hvað veldur svo veikri stöðu til forystu.

Eigið góðar stundir á baráttudegi verkalýðsins.

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.