Við vinnum fyrir þig

Translate to

Mikill verðmunur á milli verkstæða

Allt að 7.179 kr. verðmunur er á þjónustu við dekkjaskipti fyrir jeppa af stærri gerðinni með álfelgu af stærð 265/60R18. Þetta kemur fram í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði hjá 24 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið þriðjudaginn 27. október. Gúmmívinnustofan SP dekk var oftast með hæsta verðið á þjónustunni en Titancar í Kópavogi var alltaf með lægsta verðið.

Eftirtalin bifreiðaverkstæði neituðu þátttöku í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ: N1, Nesdekk, Sólning, Dekkjahöllin, Barðinn, Bifreiðaverkstæði Grafarvogs, Klettur, Bílverið og Hjólbarðaverkstæði Kaldasels.

Mikill verðmunur á milli verkstæða
Mestur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa (t.d. Mitshubishi Pajero)  með 18´´ álfelgu (265/60R18) sem var ódýrust á 6.000 kr. hjá Titancar en dýrust á 13.179 kr. hjá Gúmmívinnustofunni SP dekk, verðmunurinn var 7.179 kr. eða 120%. Fyrir stálfelgu af sömu stærð var ódýrast að umfelga á 6.000 kr. hjá Titancar en dýrast á 12.384 kr. hjá Gúmmívinnustofunni SP dekk. Verðmunurinn var 6.384 kr. eða 106%.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á dekkjaskiptum fyrir smábíl, minni meðalbíl og meðalbíl á 14, 15 eða 16´´ stálfelgum. Þjónustan var ódýrust á 4.500 kr. hjá Titancar en dýrust á 7.607 kr. hjá Toyota, verðmunurinn var 3.107 kr. eða 69%. Fyrir álfelgu af sömu stærð var þjónustan ódýrust á 4.500 kr. hjá Titancar en dýrust á 8.120 kr. hjá Gúmmívinnustofunni SP dekk. Verðmunurinn var 3.620 kr. eða 80%.

Sex hjólbarðaverkstæði með sama verð og í fyrra
Af þeim hjólbarðaverkstæðum sem borin eru saman á milli ára hafa sex þeirra ekki hækkað hjá sér verð á dekkjaskiptum á meðalbíl með 15´´ álfelgu (195/65R15) frá því í október 2014. Mesta hækkunin var hjá Dekkverk um 20% og Dekkjahúsinu um 18%. Kvikkfix hefur hækkað um 12% en Gúmmívinnustofa SP dekk, Bílabúð Benna og Max 1 um 2-4%. Verð þjónustunnar hefur lækkað hjá Betra gripi milli ára úr 7.530 kr. í 6.929 kr. eða um 8%. Verðið hefur lækkað um 1% hjá Vöku.

Sjá nánar niðurstöður í töflu.

N1, Nesdekk, Bifreiðaverkstæði Grafarvogs, Sólning, Klettur, Dekkjahöllin, Bílverið, Barðinn og Hjólbarðaverkstæði Kaldasels neituðu þátttöku í könnuninni.

Kannað var verð á þjónustu við dekkjaskiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu á álfelgum og stálfelgum af stærðum 14,15, 16 og 18´´ á 29 hjólbarðaverkstæðum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Verðin í könnuninni eru án afsláttar en verkstæðin bjóða upp á margskonar afslætti t.d. félagskírteini Bárunnar, FÍB, eldri borgara og staðgreiðslu. Viðskiptavinir eru því hvattir til að spyrja um afslátt.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.