Vaxandi ójöfnuður á vesturlöndum er áhyggjuefni
Á síðustu árum hafa augu fræðasamfélagsins og alþjóðastofnana beinst í auknum mæli að vaxandi ójöfnuði innan þróaðra ríkja. Þessi þróun hefur verið sýnileg beggja vegna Atlantshafsins en alþjóðlega efnahagskreppan varð þó til að hægja á henni tímabundið sem skýrist m.a. af því hversu mikið af auði tapaðist hjá hinum tekjuhæstu við efnahagshrunið. Á Norðurlöndunum, þ.m.t. á Íslandi, mælist ójöfnuður lítill í alþjóðlegu samhengi en á árunum fyrir hrun fór hann engu að síður vaxandi. Norðurlöndin hafa þannig ákveðna sérstöðu, jöfnuður er og hefur verið mikill þar í samanburði við önnur OECD ríki en án þess að það hafi orðið til þess að draga úr hagvexti eða lífskjörum á Norðurlöndunum.