Vegna mánaðarmóta
Næstu mánaðarmót ber að greiða umsamdar hækkanir á launum samkvæmt nýjum kjarasamningi SGS og SA. Samningurinn gildir frá 1. febrúar sl. og ber að greiða kr. 14.600 í eingreiðslu fyrir janúar. Almenn hækkun fyrir utan launataxta er 2,8%. Kauptaxtar sem eru kr. 230.000 og lægri hækka sérstaklega og nemur hækkunin tæplega 5%. Dæmi: Launaflokkur 1, byrjunarlaun, hækkar um kr. 9.565 og launaflokkur 17, eftir sjö ár, hækkar um kr. 10.107. Aðrir kauptaxtar og kjaratengdir liðir (Bónus, premía, akkorð o.fl.) hækka um 2,8%, þó að lágmarki um kr. 8.000 á mánuði fyrir dagvinnu miðað við fullt starf.
Hægt er að sjá upplýsingar um taxtabreytingar í meðfylgjandi skjali merkt kauptaxtar hér fyrir neðan.
Eingreiðsla
Þar sem samningurinn gildir frá 1. febrúar verður kr. 14.600 eingreiðsla vegna janúarmánaðar miðað við fullt starf/starfshlutfall og að viðkomandi hafi verið í vinnu 1. febrúar.
Lágmarkstekjur fyrir fullt starf
Lágmarkstekjur fyrir fullt starf, fullar 173,33 unnar stundir á mánuði (40 stundir á viku) skulu vera sem hér segir fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki:
Hinn 1. febrúar 2014 |
kr. |
214.000 |
á mánuði. |
- Mánaðarlega skal greiða uppbót á laun viðkomandi starfsmanna sem ekki ná framangreindum tekjum, en til launa í þessu sambandi teljast allar greiðslur, þ.m.t. hverskonar bónus-, álags- og aukagreiðslur, sem falla til innan ofangreinds vinnutíma.
- Laun fyrir vinnu umfram 173,33 stundir á mánuði og endurgjald á útlögðum kostnaði reiknast ekki með í þessu sambandi.
Orlofsuppbót
Orlofsuppbót fyrir hvert orlofsár (1.maí til 30. apríl) miðað við fullt starf er:
- Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2014 verði orlofsuppbót kr. 39.500.
Desemberuppbót
Desemberuppbót miðað við fullt starf er:
- Á árinu 2014 kr. 73.600.