Við vinnum fyrir þig

Translate to

Vegna verkfalls leikskólakennara

Eins og flestum er kunnugt þá hefur Félag Leikskólakennara boðað verkfall frá og með 22. ágúst nk. hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma. Þar sem okkar félagsmenn starfa á leikskólum við hliðina á leikskólakennurum sem hugsanlega fara í verkfall, er nauðsynlegt að hafa í huga hvað gæti talist verkfallsbrot, þ.e. verði túlkað þannig að okkar fólk sé að ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli. Meðfylgjandi eru viðmiðunarreglur Félags leikskólakennara sem félagið leggur til grundvallar á verfallsvörslu sinni sem framkvæmd verður af Félagi leikskólakennara og á ábyrgð þess.

Báran, stéttarfélag hvetur félagsmenn til að sýna Félagi leikskólakennara stuðning í þessari kjarabaráttu og virða eftirtaldar viðmiðunarreglur í verkfalli sem stjórn Félags leikskólakennara hefur samþykkt.

 

 

 

Viðmiðunarreglur í verkfalli Félags leikskólakennara

Sé ekki farið að þessum viðmiðunarreglum gæti það verið túlkað sem verkfallsbrot.

 • Ekki er heimilst að taka börn inn á deildir þar sem deildarstjórinn er í Félagi leikskólakennara. Þær deildir eru lokaðar.
 • Ef deildarstjóri er ekki í Félagi leikskólakennara má sú deild taka við börnum sem skráð eru á þá deild, ekki af öðrum deildum.
 • Ef deildarstjóri er í Félagi stjórnenda leikskóla (t.d. aðstoðarleikskólastjóri) má sú deild taka við börnum sem skráð eru þar, ekki af öðrum deildum. Ef deilarstjórinn er í 50% starfi, má deildin einungis taka við börnum hálfan daginn.
 • Ef starfsmaður sem er félagi í FL starfar á deild þar sem deildarstjóri er ekki í verkfalli, fækkar börnum á deildinni sem því nemur (miðað við barngildisútreikninga).
 • Ef félagsmaður í Félagi leikskólakennara er yfirmaður í frístund/skólavistun í grunnskóla eða sambærilegri stofnun, er frístund/skólavistun ekki heimilt að taka á móti börnum á meðan á verkfalli stendur.
 • Námsferðir í verkfalli eru túlkaðar sem verkfallsbrot.
 • Námskeið og önnur símenntun í verkfalli er túlkað sem verkfallsbrot.
 • Starfsmönnum leikskóla sem verkfallið nær EKKI yfir, er óheimilt að taka eigin börn með sér í leikskólann á meðan verkfallið stendur, sé deild barnsins lokuð.
 • Félagar í félagi leikskólakennara sem eru í orlofi ef verkfall skellur á, detta út af launaskrá. Viðkomandi heldur orlofsrétti sínum og getur annað hvort farið í orlof eftir að verkfalli lýkur eða fengið orlofið greitt samkvæmt samkomulagi við vinnuveitanda.
 • Félagar í Félagi leikskólakennara sem eru í veikindaleyfi ef verkfall skellur á, detta út af launaskrá á meðan verkfallið stendur. Þann tím eru þeir þ.a.l. ekki að nýta veikindarétt sinn.
 • Greiðslur úr Fæðingarorlofsssjóði  til þeirra sem eru í fæðingarorlofi haldast óbreyttar í verkfalli.

Samþykkt í stjórn FL 10. ágúst 2011 og yfirfarið að lögfræðingi KÍ.

 

 

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir

Formaður Bárunnar, stéttarfélags

Báran, stéttarfélag

Austurvegi 56

800-Selfoss

s.4805000

halldora@baran.is