Vel heppnaðir fræðsludagar
Fræðsludagar stéttarfélaganna við suðurströndina voru haldnir 4. til 6. október á Hótel Örk í Hveragerði. Þar voru samankomnir trúnaðarmenn og stjórnir Bárunnar stéttarfélags, Drífanda, stéttarfélags, Verkalýðsfélags Suðurlands, Verkalýðsfélags Grindavíkur og Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis.
Henný Hinz, deildarstóri hagfræðideildar ASÍ fór yfir breytingar á lífeyrissjóðskerfinu. Maríanna Traustadóttir, jafnréttisfulltrúi hjá ASÍ fjallaði um jafnréttismál út frá ýmsum sjónarhornum, Hjalti Tómasson og Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, eftirlitsfulltrúar fluttu erindi um eftirlit á vinnustöðum, Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ var með fræðsluerindi um verktakavinnu og Steinunn Stefánsdóttir, sálfræðingur hélt erindi um erfið samskipti á vinnustöðum.
Í lok fyrri dags námskeiðs var farið í vel heppnaða heimsókn í Landbúnaðarháskóla Íslands í Ölfusi þar sem Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur tók á móti hópnum. Einnig var orlofsbyggðin Ölfusborgir heimsótt. Sigurlaug B. Gröndal verkefnastjóri Félagsmálaskóla Alþýðu kynnti sögu staðarins.
Þetta er í fyrsta sinn sem Báran, stéttarfélag tekur þátt í þessu samvinnuverkefni stéttarfélaganna við Suðurströndina. Þátttakendur voru sammála um að erindin voru fróðleg, skemmtileg og koma að góðu gagni þegar kemur að trúnaðarmannahlutverkinu.