Við vinnum fyrir þig

Translate to

Verðkönnun á nýjum skólabókum

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á nýjum skólabókum í 5 bókabúðum á höfuðborgarsvæðinu sl. þriðjudag. Við samanburð á sambærilegri könnun sem gerð var í ágúst 2014 kemur í ljós að verð á skólabókum hefur breyst á þeim 20 bókatitlum sem bornir voru saman að þessu sinni.

Penninn-Eymundsson hefur lækkað hjá sér verð á milli mælinga á 11 titlum af 18 sem þeir áttu til í báðum mælingum, um allt að 24%. A4 lækkar verð á 7 titlum af 18 en hækkar verð á 11 titlum. Hjá Bóksölu Stúdenta og Forlaginu Fiskislóð hefur verð bókanna oftast hækkað um 4%. Bókabúðin IÐNÚ hefur oftast hækkað verð um 4%, þó má sjá mun meiri hækkanir hjá versluninni en einnig stöku lækkun.

Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miða við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ þann 19.8.14. og 18.8.15. Rétt er að árétta að tekin eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar.

Kannað var verð í eftirtöldum verslunum: Bóksölu stúdenta, Pennanum-Eymundsson, A4, Forlaginu Fiskislóð og Bókabúðinni IÐNÚ.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Nánari samanburð má sjá í meðfylgjandi töflu.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.