Verðkönnun á páskaeggjum
Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á páskaeggjum í 7 matvöruverslunum víðsvegar um landið mánudaginn 26. mars. Kannað var verð á 28 algengum páskaeggjum. Bónus var með lægsta verðið á 16 páskaeggjum af 28, næst oftast var Fjarðarkaup með lægsta verðið eða á 9 páskaeggjum og Krónan á 3. Samkaup-Úrval var með hæsta verðið á 21 páskaeggjum af 28, en Hagkaup var næst oftast með hæsta verðið eða á 7 páskaeggjum.
Flest páskaeggin í könnuninni voru fáanleg í Fjarðarkaupum sem hafði á boðstólum öll páskaeggin sem voru skoðuð. Krónan átti til 27 af 28 og Nettó og Hagkaup 26. Fæst eggjanna voru fáanleg í Nóatúni eða 18 talsins og Bónus átti 21. Kostur og Víðir neituðu þátttöku í könnuninni.
Mestur verðmunur í könnuninni reyndist vera á páskaeggi frá Freyju númer 9, bæði draumaeggi og ríseggi, sem var dýrast á 2.569 kr. hjá Samkaupum-Úrval en ódýrast á 1.598 kr. í Fjarðarkaupum. Verðmunurinn var 971 kr. eða 61%.
Minnstur verðmunur í könnuninni var á lakkrís páskaeggi frá Nóa Síríus. Það var dýrast á 1.379 kr. hjá Nettó en ódýrast á 1.259 kr. hjá Bónus. Verðmunurinn var 120 kr. eða 10%.
Samanburður á milli ára
Verð á páskaeggjum hefur hækkað í flestum tilfellum, hjá öllum verslunum, nema á Nóa Síríus gulleggi – 6 stk. í pakka, sem hefur lækkað á milli ára. Mesta lækkunin var hjá Fjarðarkaupum, Samkaupum-Úrvali og Hagkaupum um 55%, hjá Nettó um 54% og hjá Bónus um 53%.
Mesta hækkunin á milli ára er hjá Samkaupum-Úrvali en þar hækkaði verð á Síríus konsum páskaeggi um 27%, í Nettó um 21%, Krónunni og Bónus um 4%, Fjarðarkaup um 1% en verðið stóð í stað hjá Hagkaupum.Ekki var gerður samanburður milli ára á þeim páskaeggjum sem ekki voru jafnþung.
Sjá nánar niðurstöður í töflu á heimasíðu ASÍ.
Verðkönnunin tók til algengra páskaeggja frá íslenskum framleiðendum.
Könnunin var gerð í eftirfarandi verslunum: Bónus Akureyri, Krónunni Lindum, Nettó Egilsstöðum, Hagkaupum Kringlunni, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Nóatúni Hamraborg og Samkaupum Úrval Hafnarfirði. Kostur og Víðir neituðu að taka þátt í verðkönnuninni, þar sem þeir telja það ekki þjóna hagsmunum sínum að verðlagseftirlit ASÍ upplýsi neytendur um verð í verslunum þeirra.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ
Tekið af heimasíðu ASÍ