Við vinnum fyrir þig

Translate to

Verðkönnun – Mikil hreyfing á matvörumarkaði

Verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á matvöru sem gerð var 8. september sýnir gríðarlegan mun á verðlagi í þeim 14 verslunum sem skoðaðar voru. Í 42 tilfellum af 104 var yfir 100% munur á hæsta og lægsta verði, þar af var munurinn í 14 tilfellum yfir 160%. Í 50 tilfellum var munurinn 40-100%.
Könnunin náði bæði til lágvöruverðsverslana og minni verslana sem eru margar hverjar með lengri opnunartíma auk verslana sem eru staðsettar á landsbyggðinni og eru hluti af stærri keðjum. Mikil hreyfing hefur verið á matvörumarkaði undanfarið þar sem nýjar verslanir hafa komið í staðinn fyrir gamlar en það getur haft áhrif á verðlag.
Verðlag í 10-11, Krambúðinni og Samkaup Strax hátt en verðlag í Iceland lækkað
10-11 sker sig úr og er með hæsta verðið í lang flestum tilfellum og munar töluvert miklu á verðlagi í 10-11 og þeim verslunum sem næstar koma. 10-11 var með hæsta verðið í 73 tilfellum af 104, Samkaup Strax næst oftast, í 11 tilfellum og Krambúðin í 9 sinnum. 10-11 verslunum hefur fækkað töluvert og eru nú einungis fjórar eftir, þar af þrjár í miðbæ Reykjavíkur. Þrjár nýjar matvöruverslanir undir nafninu Extra hafa opnað á þessu ári en þær eru staðsettar í Reykjavík, Reykjanesbæ og á Akureyri. Verð hjá Extra á þeim vörum sem voru í könnuninni er upp og ofan, stundum nokkuð lágt en í öðrum tilfellum tiltölulega hátt. Extra er í eigu Basko sem á einnig 10-11. Samkaup Strax verslunum hefur fækkað mikið og er einungis ein eftir í Reykjavík en hún er í eigu Samkaupa rétt eins og Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.
Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni, í 60 tilfellum af 104, Krónan næst oftast, í 13 tilfellum og loks Fjarðarkaup í 9 tilfellum. Ef verslununum er raðað upp miðað við verðlag á þeim vörum sem voru til skoðunar í þessari könnun má sjá að Iceland hefur fært sig töluvert nær lágvöruverðsverslunum í verði en áður. Iceland er til að mynda oft með lægra verð en Hagkaup í þessari könnun en í fyrri könnunum  var það á hinn veginn, þ.e. Iceland oftar með hærra verð.
Krambúðum fjölgar á landsbyggðinni og hækkar matvöruverð
Töluverð umræða hefur verið um matvöruverslanir á landsbyggðinni undanfarið en íbúar sumstaðar hafa verið ósáttir við að Kjörbúðinni hafi verið skipt út fyrir Krambúðina. Verð í síðarnefndu versluninni er mörgum tilfellum töluvert hærra rétt eins og könnunin sýnir. Krambúðirnar eru staðsettar á 21 stað víðsvegar um landið, þar af eru 10 verslanir á höfuðborgarsvæðinu.
Í þessari könnun má einnig sjá verð í Kjarval og Kr. búðinni sem er eru báðar í eigu Festis rétt eins og Krónan. Út frá verði á þeim vörum sem könnunin náði til virðist verðlag í Kjarval og Kr. verslunum vera á svipuðum slóðum og verðlag í Kjörbúðinni, Fjarðarkaupum og Iceland en Kjarval og Kr. búðin eru staðsettar í fjórum minni bæjum á landsbyggðinni þar sem nokkuð langt er í næstu verslun.
Í verðtöflunni hér að neðan má sjá dæmi um verð. Sjá einnig hitamynd hér.
Sama verðkönnun var framkvæmd í minni verslunum á landsbyggðinni en hér má nálgast niðurstöður úr þeirri könnun.
Um könnunina
Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mjódd, Bónus Smáratorgi, Krónunni Lindum, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup Skeifunni, Kjörbúðinni Garði, Krambúðinni Laugardal, Heimkaup.is, Samkaup Strax, Tíu ellefu Laugavegi, Extra Barónstíg, Kr. Þorlákshöfn, Kjarval Hellu.
Í könnuninni var hilluverð á 104 vöru skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. Til að fá fram röðunina á verslununum eru frávik frá lægsta verði reiknuð og raðast verslanirnar því eftir því hversu langt þær eru frá þeirri verslun sem er með lægstu verðin. Þar sem verð vantar eru meðalverð notuð.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.
Sjá nánari upplýsingar og flettitöflu með öllum vörunum í frétt á heimasíðu ASÍ.