Við vinnum fyrir þig

Translate to

Verðlagseftirlit ASÍ

Verð á matvöru í Iceland að meðaltali 38% hærra en lægsta verð

Í verðkönnun ASÍ á matvöru og páskaeggjum sem framkvæmd þann 29. mars mældist mikill munur á verði milli verslana. Þannig var yfir 60% munur á hæsta og lægsta verði á 28 vörum af 141 í matvörukönnuninni, 40-60% verðmunur á 30 vörum og 30-40% verðmunur á 40 vörum.

Dæmi um hve mikill  verðmunur getur verið á einstakri matvöru var allt að 99% verðmunur á 200 gr. KEA skyri milli verslana. Allt að 47% verðmunur var á sólkjarnarúgbrauði, 64% verðmunur á Sóma samlokum og 63% verðmunur á súpukjöti. Bónus var oftast með lægsta verð á matvöru í könnuninni eða í 57% tilfella en Krónan næst oftast, í 20% tilfella. Bónus var einnig að jafnaði með lægsta meðalverðið og var verð í versluninni að meðaltali 2,8% frá lægsta verði. Iceland  var oftast með hæsta verðið eða í 68 tilvikum. Því til viðbótar var  meðalverð í versluninni hæst. Þannig var verð á vörum í könnuninni að meðaltali lengst frá lægsta verði eða 38% hærra en lægsta verð.

Minni verðmunur var á páskaeggjum en algengast var að munur á hæsta og lægsta verði væri 10-20%. Mestur verðmunur var á minni páskaeggjum. Bónus var oftast með lægsta verð á páskaeggjum, í 27 tilfellum af 32 en Iceland oftast það hæsta, í 24 tilfellum. Meðalverð á páskaeggjum í Iceland var einnig hæst eða að meðaltali 24% hærra en lægsta verð.

Bónus með lægsta meðalverð á matvöru og páskaeggjum

Bónus var að jafnaði með lægsta verðið á matvöru í könnuninni eða lægsta meðalverðið. Það merkir að þar sem verðið í Bónus  var ekki það lægsta var það að meðaltali 2,8% hærra en lægsta verð. Verð í Krónunni var að meðaltali 6,4% hærra en lægsta verð og verð í Nettó 15,4% hærra en lægsta verð. Verð í Hagkaupum og Fjarðarkaupum var um 20% frá lægsta verði. Eftir fylgja Kjörbúðin og Heimkaup og svo Iceland þar sem meðalverð er hæst eða að meðaltali 38% frá lægsta verði. Breyting verður á þegar meðalverð á páskaeggjum er skoðað en þar kemur Fjarðarkaup á eftir Krónunni með þriðja lægsta meðalverðið sem er 5,6% frá lægsta verði. Hagkaup kemur þar á eftir og Nettó með fimmta lægsta meðalverðið sem er litlu lægra en í Heimkaup. Kjörbúðin er með næst hæsta meðalverðið og Iceland það hæsta. Sjá nánar um aðferðarfræði við útreikning í lok fréttar.

Allt að 63% munur á kílóverði á súpukjöti og 137% munur á kílóverði á frosnum bláberjum

Oft mátti finna mikinn mun á hæsta og lægsta verði í öllum vöruflokkum og á mörgum algengum vörum. Sem dæmi má nefna 99% mun á hæsta og lægsta verði á 200 gr. hreinu Kea skyri. Lægst var verðið í Bónus, 175 kr. en hæst í Iceland, 349 kr. Í flokki brauð- og kornvöru má nefna 70% verðmun á Finn Crisp hrökkbrauði og 141% mun á hæsta og lægsta kílóverði af haframjöli. Þá var 39% munur á frosnu ókrydduðu lambalæri, 63% munur á kílóverði af frosnu súpukjöti og 54% munur á SS malakoffi í sneiðum. Einnig var mikill verðmunur var á frosinni vöru en þar má nefna 137% verðmun á frosnum bláberjum, 61% verðmun á Sun Lolly og 50% verðmun á Dalooon vorrúllum. Í flokki þurrvöru og dósamatar má nefna 65% verðmun á hökkuðum tómötum og 47% verðmun á púðursykri.

Allt að 72% verðmunur á páskaeggjum
Bónus var oftast með lægsta verðið á páskaeggjum, í 27 tilvikum af  32 en Iceland oftast með það hæsta, í 24 tilvikum. Krónan var í mörgum tilfellum nálægt Bónus í verði og munaði oft einungis 1 kr. á verði þó dæmi væru um meiri verðmun á páskaeggjum milli verslana.

Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði á páskaeggjum í könnunum væri 10-20% eða í 15 tilvikum af 32. Í 10 tilvikum var 20 – 30% munur á hæsta og lægsta verði, í tveimur tilvikum var 30 – 40% munur.

Almennt var meiri hlutfallslegur verðmunur á minni páskaeggjum, þ.e. stærð nr. 3 og undir. Mestur verðmunur reyndist  vera á Góu páskaeggjum nr. 3 eða 72 % þar sem lægsta verðið var í Bónus kr. 698 og hæsta verðið í Iceland kr. 1199. Í krónum talið var mestur munur á Nóa Siríus XXL Risaeggi, 1.020 kr. en lægsta verðið var í Bónus, 2.907 kr. og hæsta verðið í Nettó, 7.499 kr.

 

Um könnunina

Ýmsar aðferðir eru til að varpa ljósi á niðurstöður í verðkönnunum með mörgum vörum og verslunum. Til að skýra betur verð hjá þeim verslunum sem eru hvorki oft með hæsta né lægsta verðið í verðkönnun og finna út meðalverð má reikna út hlutfallslegt frávik frá lægsta verði hverrar vöru. Þannig raðast verslanirnar eftir því hversu langt verð á vörum í könnuninni er að meðaltali frá lægsta verði.
Í könnuninni var hilluverð á 141 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. Verðkannanir verðlagseftirlits ASÍ gefa upplýsingar um verð á takmörkuðum fjölda lyfja og ekki er hægt að alhæfa um verðlag almennt út fá þeim. Þær gefa þó sterkar vísbendingar.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mjódd, Bónus Selfossi, Krónunni Granda, Fjarðarkaupum, Iceland Vesturbergi, Hagkaup Eiðistorgi, Kjörbúðinni Sandgerði og á Heimkaup.is. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.