Við vinnum fyrir þig

Translate to

Verðskrá á dekkjaverkstæðum

Neytendastofa kannaði á dögunum verðmerkingar á dekkjaverkstæðum höfuðborgarsvæðisins. Nú er komið að því að landsmenn þurfa að skipta yfir á vetrardekkin og eiga neytendur rétt á því að geta gert verðsamanburð á milli verkstæða og leitað eftir bestu tilboðunum.
Farið var á 35 dekkjaverkstæði og athugað hvort verðskrá yfir alla framboðna þjónustu væri sýnileg.

Könnunin leiddi í ljós að af þessum 35 dekkjaverkstæðum voru 12 þeirra ekki með verðskrá til staðar en það var hjá Barðanum Skútuvogi, Vöku Skútuvogi, Max 1 Bíldshöfða, Kvikkfix Hvaleyrarbraut, Dekkjahúsinu Auðbrekku, Bílkó Smiðjuvegi, Bíla áttunni Smiðjuvegi, Sólningu Smiðjuvegi, Hjólbarðaverkstæði Bílabúðar Benna Vagnhöfða, Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs Gylfaflöt, Klett Suðurhrauni og Sólningu Hjallahrauni. Á tveim verkstæðum var verðskrá til staðar en ekki sýnileg en það var hjá Gúmmívinnustofunni Skipholti og Nýbarða Lyngási.

Könnuninni verður fylgt eftir með annarri heimsókn á næstu vikum og mun þá koma í ljós hvort rekstraaðilar dekkjaverkstæðanna hafi farið eftir fyrirmælum stofnunarinnar og bætt verðmerkingar sínar. Hafi það ekki verið gert geta verkstæðin átt von á sektum. Neytendastofa mun halda áfram að fylgja eftir sjálfsögðum rétti landsmanna og veita fyrirtækjum landsins nauðsynlegu aðhaldi sem skilar sér í formi góðrar og réttrar verðmerkingu vara. Stofnunin hvetur neytendur til að vera á verði og koma ábendingum til skila í gegnum rafræna neytendastofu á vefslóðinni www.neytendastofa.is

Tekið af heimasíðu Neytendastofu.