Verður kjarasamningum sagt upp í lok mánaðarins?
Báðir varaforsetar ASÍ hafa ýjað að því í viðtölum síðustu daga að kjarasamningum kunni að vera sagt upp í lok mánaðarins. Forsendunefnd þarf að skila sinni niðurstöðu í síðasta lagi 28. febrúar. Að því gefnu að forsendur kjarasamninga á almenna markaðnum haldi þá gilda samningarnir til loka árs 2018.
Sigurður Bessason formaður Eflingar og 2. varaforseti ASÍ sagði í viðtali við Spegilinn á miðvikudag að í fjárlögum fyrir árið 2017 vanti fjármagn fyrir 300 félagslegum íbúðum en í kjarasamningnum sé gert ráð fyrir að ríkið komi með fjármagn fyrir 600 íbúðum á ári næstu árin. Ef þetta verður ekki lagað er um kláran forsendubrest að ræða.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR og 1. varaforseti Alþýðusambands Íslands, sagði í samtali við Viðskiptablaðið ljóst að forsendan um aukinn kaupmátt standist. Aftur á móti sé verið að bíða eftir tölum frá Hagstofunni um launaþróun og því sé enn óvíst hvort sú forsenda standist.
„Það sem liggur fyrir í dag er að það er forsendubrestur hvað varðar loforð stjórnvalda um að fjármagna byggingu 600 íbúða í almenna íbúðakerfinu. Það finnst ekkert um þetta í fjárlögum og ef ekki verður bætt við auknu fé í þessa uppbyggingu þá eru forsendur kjarasamninga brostnar,“segir Ólafía og bætti við
„Síðan er náttúrlega mikil óánægja hjá okkar félagsmönnum með niðurstöðu kjararáðs. Það gengur náttúrulega ekki að fjármálaráðherra fari í pontu á Alþingi og segist styðja ákvörðun kjararáðs en nánast í næstu setningu segir hann að aðilar vinnumarkaðarins verði að halda að sér höndum og megi ekki gera of háa samninga.“
Tekið af heimasíðu ASÍ.