Verkfallsvarsla
Í dag hefst fyrsta lota í verkfallsaðgerðum stéttarfélaganna á landsbyggðinni. Rétt að árétta nokkra hluti til glöggvunar þeim sem málið varðar.
Einungis þeir sem taka laun eftir almenna samningnum og hótel og veitingahúsasamningnum svokallaða, það er starfsfólk í þjónustustörfum, byggingariðnaði, veitingahúsum, hótelum, bílstjórar, ferðaþjónustu, matvælaiðnaði og svo mætti áfram telja, eru að fara í verkfall.Þeir sem vinna eftir öðrum samningum fara ekki í verkfall að sinni.
Við finnum ekki annað en atvinnurekendur flestir ætli að hlýta þeim lögum og reglum sem gilda við aðstæður sem þessar. Við biðjum hinsvegar félagsmenn að tilkynna til okkar tafarlaust ef þeir telja sig verða vara við verkfallsbrot. Verkfallsverðir munu verða á ferðinni og fylgjast með og skrá niður og bregðast við ef þurfa þykir. Hafa skal samband við Hjalta í s. 480 5015 eða 844 7660
Félagsmenn eru hvattir til að leggja okkur lið og mæta til verkfallsvörslu ef óskað er eftir. Birt verður hvatning hér og á Facebook síðu félagsins ef þurfa þykir en í dag lítur út fyrir að nægur mannskapur mæti.
Við hvetjum félagsmenn til að vera á varðbergi fyrir brotum og hringja til að fá upplýsingar ef menn eru í vafa.
Hafið góðan dag og að endingu minnum við á 1.maí gönguna á morgun. Hún hefst klukkan 11:00 við Austurveg 56, hús stéttarfélaganna og enda við Hótel Selfoss þar sem verður hátíðardagskrá.
Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að mæta og sýna samstöðuna í verki