Vinna er velferð – hvar eru tækifærin?
Í Dagskránni, fréttablaði Suðurlands 11. október birtist grein eftir Halldóru Sigríður Sveinsdóttur formann Bárunnar, stéttarfélags. Í greininni fór Halldóra yfir stöðu atvinnumála á Suðurlandi og kynnti ályktun sem samþykkt var á stjórnarfundi Bárunnar 3. maí sl. Þar var samþykkt að skora á sveitarstjórnarmenn og þingmenn Suðurlands að taka höndum saman og vinna stórskipahöfn í Þorlákshöfn brautargengi.
Hægt er að lesa greinina í heild hér:
Vinna er velferð – hvar eru tækifærin?
Mikil og góð þátttaka var í hátíðarhöldum stéttarfélaganna á Selfossi/Suðurlandi á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins þann 1. maí sl. Kjörorð dagsins var „Vinna er velferð“.
Vinnufærum höndum vantar atvinnu en hvar er viljinn til atvinnuuppbyggingar á svæði þar sem tækifærin liggja alls staðar? Hvar er slagkraftur okkar Sunnlendinga?
Þegar þessi grein er skrifuð þá eru 659 skráðir atvinnulausir á Suðurlandi. Vinnumálastofnun á Suðurlandi hefur þó verið ötul við að greiða götu fólks í atvinnuleit og náð mjög þokkalegum árangri í þeim efnum. En betur má ef duga skal. Margt smátt gerir eitt stórt, hvar liggja tækifæri í atvinnuuppbyggingu fyrir svæðið hvar eru möguleikarnir? Ef við horfum í heild sína á svæðið þá búum við í matarkistu (stærsta landbúnaðarhéraði landsins) við búum við virkjunarkosti, tækifæri í ferðaþjónustu , höfn sem getur orðið alvöru stórskipahöfn og síðast en ekki síst mannauðinn okkar. Gæti þetta verið eitthvað betra?
Fréttir svipaðar og „öll mjólkurpökkun flutt á Selfoss „ eru fréttir sem mættu heyrast oftar á okkar atvinnusvæði. Þarna kemur Mjólkursamsalan áður Mjólkurbú Flóamanna með 30-50 ný störf inn í atvinnulífið á Suðurlandi. Við sunnlendingar fögnum þessum fréttum og getum vel við unað hjá þessu annars mjög svo framsækna fyrirtæki sem á sér langa hefð og sögu í okkar byggðarlagi.
Stéttarfélögin á Suðurlandi hafa fundað reglulega með þingmönnum Sunnlendinga um atvinnumál á svæðinu. Þetta hafa verið nokkuð góðir og vel sóttir fundir. Þegar þingmenn voru spurðir um sameiginlega stefnu í atvinnumálum á svæðinu sögðust þeir ekki hafa sammælst um stefnu í atvinnumálum en voru jákvæðir að vinna saman að góðum málum. Hvað þýðir það?
Ítrekaðar fréttir um stóriðju í Þorlákshöfn hafa ratað í fjölmiðla. En hver stóriðjan af annari hefur gufað jafnóðum upp. Hvers vegna?
Það er eitt baráttumál sem menn virðast geta sammælst um bæði sveitarstjórnarmenn og þingmenn. Það er stórskipahöfn í Þorlákshöfn, sem sagt stóriðja á okkar atvinnusvæði sem myndi skapa uppbyggingu og tækifæri sem ekki er séð fyrir endann á. Engum dytti lengur í hug að flytja til Noregs, menn myndu vilja flytja á okkar ástkæra Suðurland.
Eftir hverju erum við að bíða?
Á stjórnarfundi Bárunnar, stéttarfélags sem haldinn var þann 3. maí sl. var samþykkt að skora á sveitarstjórnarmenn og þingmenn Suðurlands að taka höndum saman og vinna stórskipahöfn í Þorlákshöfn brautargengi.
Sunnlendingar – stöndum nú saman
Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.