Virðing + mikilvægi = Hærri laun
Góð mæting var hjá félagsmönnum Bárunnar, stéttarfélags á ræstingaráðstefnu sem haldin var á Hótel Selfossi þann 18. mars sl. Félagsmenn Bárunnar eru 2500, þar af eru 120 sem skráðir eru í ræstingum. Þessi hópur er mjög dreifður og hefur jafnvel ekki fasta starfsstöð. Tilgangur ráðstefnunnar var að nálgast þennan hóp betur og finna út hvað helst brennur á starfsmönnum i ræstingum. Yfirskrift ráðstefnunnar var virðing + mikilvægi = hærri laun. Eins og yfirskriftin ber með sér voru umræðurnar líflegar og skemmtilegar. Farið var yfir stöðu ræstingafólks og ýmis mál þeim tengdum. Árni Steinar sérfræðingur hjá SGS fór yfir uppmælingaþjónustu og kjarasamninga. Sesselja Eiríksdóttir fór yfir ræstingamál almennt, möguleika og framtíðarsýn. Tveir frábærir fyrirlesttrar hjá þeim Jóhönnu Guðmundsdóttur sem vinnur í ræstingum á HSU „Virðing fyrir starfinu“ og Kristrúnu Agnarsdóttur hjá ISS „Að skúra sig upp“. Að lokum var farið í hópavinnu.
Ýmislegt kom í ljós þegar félagsmenn fóru að bera saman bækur sínar. Helstu atriðin voru þessi.
- Að hafa gaman af starfinu og bera virðingu fyrir því.
- Aukin fræðsla – meiri virðing – betri laun?
- Að bæta upplýsingastreymi milli deilda, yfirmanna og starfsmanna.
- Hækka laun
- Bæta kaflann um vinnuföt t.d. skór
- Bæta skilgreiningar í samningnum t.d. hvað þýðir „eftir þörfum“? Einnig að starfslýsing, ræstingasvæði sé alveg skýrt við ráðningu.
Þetta er ekki tæmandi listi yfir þau mál sem báru á góma en er gott fóður fyrir komandi kjarasamninga og vill félagið hér með koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem komu að þessari ráðstefnu.
Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður.